„Ég er í sjöunda himni með strákana og stoltur af félaginu eftir átta ár bið eftir sigri í Meistaradeildinni,“ sagði Filip Jicha þjálfari Kiel í gærkvöld eftir að hann stýrði liðinu til sigurs í Meistaradeildinni með fimm marka sigri á Barcelona í úrslitaleik í Köln, 33:28.
Þetta er í fjórða sinn sem Kiel vinnur í Meistaradeildinni. Fyrst vann liðið keppnina 2007 og aftur 2010 og 2012. Síðast lék Kiel til úrslita 2014 en tapaði þá fyrir Flensburg í úrslitaleik. Leikurinn í gærkvöld var sá 300. sem Kiel leikur í Meistaradeild Evrópu.
„Leikur okkar var frá frábær. Við verðskulduðum sannarlega sigurinn eftir allt það sem við sem hópur höfum lagt á okkur,“ sagði Jicha sem er aðeins einn þriggja manna sem hefur unnið Meistaradeildina sem leikmaður og þjálfari. Hinir eru Talant Dujshebaev og Roberto Garcia Parrondo.
Dujshebaev vann Meistaradeildina sem leikmaður Teka og síðar með Ciudad Real og aftur sem þjálfari síðarnefnda liðsins og aftur sem þjálfari Vive Kielce 2016. Parrondo vann Meistaradeildina í tvígang sem leikmaður Ciudad Real og sem þjálfari Vardar 2019. Jicha var í sigurliði Kiel í Meistaradeildinni 2010 og 2012.
Filip Jicha, þjálfari Kiel Fæddur 19. apríl 1982 í Starý Plzenec í Tékklandi. Jicha byrjaði að æfa handbolta með liði Starý Plzenec á barnsaldri en fór til Slavia Plzen 14 ára gamall og var þar í fjögur ár. Hann lék með Dukla Prag frá 2000 til 2003, St Otmar St Gallen í Sviss 2003 til 2005. Þaðan fór Jicha til Lemgo í Þýskalandi og var í tvö ár. Árið 2007 gekk Jicha til liðs við Kiel og lék með liði félagsins til 2015. Lengst af tímans var Jicha fyrirliði Kiel. Jicha gekk til liðs við Barcelona 2015. Hann lagði skóna á hilluna sumarið 2017 eftir að þrálát meiðsli settu strik í veru hans hjá Katalóníuliðinu. Jicha lék 148 landsleiki fyrir Tékkland á árunum 2000 til 2016. Hann tók við þjálfun Kiel sumarið 2019 eftir að hafa verið í læri hjá Alfreð Gíslasyni í eitt ár.
„Það var mikið hungur í liðinu fyrir leikinn. Menn lögðu allt í sölurnar. Eina sem skyggði á gleðina var að geta ekki fagnað með 20 þúsund áhorfendum í keppnishöllinni í leikslok,“ sagði Jica sem tók við þjálfun Kiel sumarið 2019 af Alfreð Gíslasyni.
Eftir á hafa margir bent á að Jicha hafi oft gagnrýnt hina svokölluðu „sjö á sex reglu“ það er að leika með sjö menn í sókn og kalla markvörðinn af leikvelli. Þessi leikaðferð hafi e.t.v. verið lykill Jicha og Kiel að sigrinum í gærkvöld.
Kiel fékk 500.000 evrur í sigurlaun sem er jafnvirði um 78 milljóna króna. Nokkuð sem Kiel eins og öðrum félögum veitir ekki af um þessar mundir þegar tekjurnar hafa dregist mikið saman vegna kórónuveirufaraldursins.
Áformað er að úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu fyrir leiktíðina 2020/2021 fari fram í Köln 12. og 13. júní.