„Við erum sáttar að enda árið með sigri,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir við handbolta.is eftir að lið hennar, Bayer Leverkusen, vann Göppingen í þýsku 1. deildinni í kvöld á heimavelli, 24:19. Leverkusen endar þar með árið í áttunda sæti og með sigri. Hildigunnur skoraði tvö mörk í þremur skotum og var einu sinni vísað af leikvelli.
Um sex vikur eru liðnar frá síðasta leik Leverkusen en hlé hefur var á keppni í deildinni vegna Evrópumótsins í Danmörku.
Í lok nóvember voru þjálfaraskipti hjá Leverkusen og segir Hildigunnur mikla vinnu vera að baki hjá leikmönnum og nýjum þjálfara að stilla saman strengi.
„Það hefur verið mikil vinna hjá okkur eftir að nýi þjálfarinn kom við að að fara yfir hlutina. Til viðbótar erum við með lykilleikmenn í meiðslum auk þess sem við vorum að fá nýjan leikmann, þannig það er búið að vera mikið púsl í gangi,“ sagði Hildigunnur.
Staðan í deildinnni:
Bietigheim 19(11), Dortmund 18(9), Blomberg 15(10), Neckarsulmer 15(10), Thüringen HC 13(11), Metzingen 12(10), Buxtehuder 12(11), Bayer Leverkusen 10(9), Bensheim/Auerbach 10(9), Bad Wildungen 10(10), Union Halle-Neustadt 10(10), Oldenburg 10(11), Buchholz 08-Rosengarten 6(12), Göppingen 4(10), Mainz 0(10), Kurpfalz Bären 0(11).