- Auglýsing -
- Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar þegar lið hans, Flensburg, vann Erlangen, 31:29, í Flens-Arena í gærkvöld. Flensburg færðist upp í þriðja sæti deildarinnar við þennan sigur með 17 stig eftir 12 leiki. Kiel er stigi á eftir og á tvo leiki til góða. Rhein-Neckar Löwen er með 17 stig í öðru sæti eftir 11 leiki og Füchse Berlin er efst með 19 stig, einnig að loknum 11 leikjum. Erlangen er í sjötta sæti með 15 stig.
- Eftir talsverða mæðu þá tókst leikmönnum Empor Rostock að vinna leik í gær þegar þeir lögðu Bietigheim, 33:29, í 11. umferð þýsku 2. deildarinnar í handknattleik. Þetta var aðeins annar sigur liðsins í 11 leikjum á tímabilinu. Hafþór Már Vignisson skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar fyrir Empor. Sveinn Andri Sveinsson var hinsvegar ekki í liðinu í leiknum.
- Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof töpuðu óvænt fyrir Hammarby á útivelli í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar, 40:34, í gær. Síðari leikurinn verður í Partille mánudaginn 21. nóvember.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, var ekki í leikmannahóp PAUC í gærkvöld þegar liðið tapaði fyrir PSG í París, 37:32. PAUC situr í sjöunda sæti deildarinnar með 10 stig eftir níu leiki og er sex stigum á eftir PSG sem er efst.
- Alpla Hard vann grannaslaginn við Bregenz í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gær, 29:27. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Hard sem er efst í deildinni með 17 stig eftir níu leiki, er stigi á undan Krems og þremur stigum fyrir ofan HC Fivers sem felldi KA-menn naumlega úr keppni í Evrópubikarkeppninni fyrir hálfum mánuði. Því miður reyndist þrautin þyngri að finna í gærkvöld upplýsingar um það hvort Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði fyrir Hard í leiknum en hann leikur með liðinu til ársloka sem lánsmaður frá ÍBV.
- René Toft Hansen hefur framlengt samning sinn við Bjerringbro-Silkeborg til ársins 2024. Hansen sem er 38 ára gamall er í fínu formi. Hann segist ekki hafa uppi áform um að leggja skóna á hilluna góðu. Hansen kom til Bjerringbro-Silkeborg sumarið 2020 eftir að hafa leikið utan Danmerkur um nokkurra ára skeið, m.a. hjá Kiel í Þýskalandi og með Veszprém í Ungverjalandi.
- Sænski landsliðsmaðurinn Albin Lagergren hefur skrifað undir þriggja ára samning við þýska meistaraliðið SC Magdeburg. Hann kemur til félagsins næsta sumar þegar samningur við Rhein-Neckar Löwen gengur út.
- Auglýsing -