- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson varði níu skot, 36%, þann tíma sem hann stóð í marki Nantes í sigri á útivelli gegn Nimes, 32:29, í frönsku 1. deildinni í handknattleik í gær. Nantes er ásamt PSG og Montpellier í þremur efstu sætum deildarinnar eftir níu umferðir. Hvert lið hefur 16 stig.
- TTH Holstebro vann Mors-Thy, 37:31, á heimavelli í 12. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla í gær. Halldór Jóhann Sigfússon er aðstoðarþjálfari Holstebro sem færðist upp í áttunda sæti deildarinnar við sigurinn.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk, þar af eitt úr vítakasti, þegar Kadetten Schaffhausen undir stjórn Aðalsteins Eyjólfssonar, vann HSC Kreuzlingen á útivelli, 30:28, í svissnesku 1. deildinni í handknattleik í gær. Kadetten er efst í deildinni með 26 stig eftir 15 leiki.
- Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði þrjú mörk í gær fyrir GC Zürich í góðum sigri liðsins á útivelli á TSV St. Otmar St. Gallen, 33:28. GC Zürich er eftir sem áður í fjórða sæti svissnesku 1. deildarinnar með 15 stig eftir 12 leiki.
- Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar í IFK Skövde töpuðu á útivelli með sjö marka mun fyrir IFK Kristianstad í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í gær, 40:33. Síðari leikurinn verður í Skövde á sunnudaginn. Bjarni Ófeigur var markahæstur hjá Skövde í leiknum með sex mörk eins og Viktor Hallén.
- Egill Már Hjartarson var markahæstur með sjö mörk í liði StÍF þegar það tapaði fyrir KÍF í Höllinni í Kollafirði í gær, 33:27, í sjöundu umferð færeysku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla. Viktor Máni Matthíasson, sem einnig leikur með StÍF, skoraði ekki mark í gær. Þetta var annað tap StÍF í röð í deildinni og situr liðið nú í fimmta sæti deildarinnar með þrjú stig eftir sex leiki, á sem sagt leik til góða á liðin fyrir ofan.
- Jakob Lárusson stýrði Kyndli til sigurs á VB í Höllinni í Vági í gær, 25:18, í færeysku úrvalsdeildinni í kvennaflokki. Kyndill er í öðru sæti deildarinnar með 9 stig eftir fimm leiki og er tveimur stigum á eftir H71 sem hefur leikið einum leik fleira.
- EB frá Eiði, sem Kristinn Guðmundsson þjálfar, tapaði fyrir StÍF, á heimavelli, 29:24, og rekur lestina í úrvalsdeild kvenna í Færeyjum.
- Auglýsing -