Skarð var svo sannarlega fyrir skildi hjá KA/Þór í gær þegar liðið mætti Val í Olísdeild kvenna í handknattleik. Landsliðskonurnar Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Unnur Ómarsdóttir voru fjarri góðu gamni vegna meiðsla eins og Akureyri.net segir frá í morgun. Reiknað er með að þær leiki ekki meira með KA/Þórsliðinu á árinu.
Rut, sem fór á kostum gegn Fram fyrir rúmri viku, er fingurbrotin. Unnur er hinsvegar fjarverandi vegna heilahristings af völdum höfuðhöggs sem hún varð fyrir á æfingu landsliðsins í lok október áður en leikið var við Ísrael í forkeppni heimsmeistaramótsins.
Unnur og Rut eru meðal leikreyndustu leikmanna KA/Þórsliðsins sem um þessar mundir er skipað leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki.
Akureyri.net segir að Unnur og Rut verði frá æfingum og keppni fram til áramóta. KA/Þór á þrjá leiki eftir fyrir lok ársins í Olísdeild kvenna og a.mk. einn leik í bikarkeppninni, gegn ÍBV á þriðjudaginn.
KA/Þórsliðið veitti bikarmeisturum Vals harða mótspyrnu í gær og aðeins munaði tveimur mörkum á liðunum þegar upp var staðið, 28:26, fyrir Val.
Úrslit, markaskorarar leikja Olísdeildar kvenna í gær og staðan.