Þótt flestir hér heima velti nú orðið lítið fyrir sér covid19 þá er ljóst að stjórnendur Alþjóða handknattleikssambandsins og skipuleggjendur heimsmeistaramóts karla í handknatteik sem fram fer í Svíþjóð í janúar halda vöku sinni vegna veirunnar. Gerðar verða kröfur til allra leikmanna og starfsmanna heimsmeistaramótsins um að þeir mæti til leiks fullbólusettir.
Tveir skammtar og 270 dagar
Að vera fullbólusettur þýðir að viðkomandi hafi fengið a.m.k. tvo skammta af flestum algengustu bóluefnum gegn veirunni. Þó mega ekki hafa liðið meira en 270 dagar frá annarri sprautu. Ef lengra en 270 dagar eru liðnir frá annarri sprautu skilur handbolti.is ekki betur á þeim gögnum sem hann hefur í fórum sínum en nauðsyn sé á þriðju bólusetningu. Hún verður þó að eiga sér stað amk 14 dögum áður en mætt verður til leiks á HM sem hefst 11. janúar.
Þrír skammtar eru nóg
Hafi þátttakandi fengið þrjá skammta þá er ekki þörf á fjórða skammti jafnvel þótt meira en 270 daga séu liðnir frá síðasta skammti.
„Við vorum að fá upplýsingar um það fyrir tveimur vikum að það verða allir leikmenn og starfsmenn sem fara á HM að vera fullbólusettir. Það verður að viðurkennast að þetta kom okkur gríðarlega á óvart miðað við það sem búið var að ræða í aðdragandanum,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við Stöð2 og Vísir vitnar til.
Kemur í opna skjöldu
Róbert Geir segir að strangar reglur komi í opna skjöldu og að leikmenn og starfsmenn séu óánægðir með að verða að fara í viðbótar bólusetningu. Óánægjan sé ekki bundin við íslenska hópinn.
Reglur mótsins liggja ekki fyrir
Enn sem komið er hafa ekki verið kynntar sóttvarnarreglur mótsins né hvort og þá hversu oft leikmenn og starfsmenn verða að gangast undir covidpróf eða hvort þau verða yfirhöfuð tekin. Einnig liggur heldur ekki fyrir hvað gerist ef leikmaður eða starfsmaður greinist með veiruna mótinu og hversu lengi skal þá vera í sóttkví eða einangrun.
Lék marga grátt á EM karla
Covidveiran lék grátt flest landslið Evrópumótsins í handknattleik karla í upphafi þessa árs. Alls voru 26 leikmenn kallaðir inn í íslenska hópinn meðan mótið stóð yfir auk þess sem bæta varð við sjúkraþjálfara til að sinna þeim sem voru á fótum. Til viðbótar varð kostnaður HSÍ gríðar hár vegna sóttvarna fyrir mótið og á meðan það stóð yfir. Hótelkostnaður rauk m.a. upp úr öllu valdi vegna þess að allir voru á einkaherbergjum til að draga úr smitum. Venjulega deila tveir saman herbergi á mótum.
Fimm daga sóttkví á EM kvenna
Eftir því sem næst verður komist greindust ekki margir smitaðir á EM kvenna sem lauk um síðustu helgi. Próf voru tekin með reglubundnum hætti og þeir sem smituðust fóru í fimm daga sóttkví. M.a. smitaðist aðstoðarþjálfari danska landsliðins á síðustu dögum mótsins en slapp út daginn sem úrslitaleikurinn við Noreg fór fram.