- Auglýsing -
- Berta Rut Harðardóttir og samherjar í TTH Holstebro sóttu tvö stig í greipar leikmanna AGF Håndbold í næst efstu deild danska handknattleiksins í gærkvöld, 27:23. Leikið var á heimavelli AGF. Berta Rut skoraði ekki mark í leiknum. Holstebro hefur 14 stig eftir átta leiki eins og Bjerringbro og EH Aalborg sem Andrea Jacobsen leikur með.
- Illa gekk hjá Íslendingaliðinu Skara HF í fyrsta leik þess í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna þegar keppni hófst á nýjan leik í gærkvöld að loknu hléi vegna EM. Skara tapaði með 16 marka mun á útivelli fyrir Önnereds, 36:20. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, fyrrverandi leikmaður Önnereds, skoraði þrjú marka Skara og Aldís Ásta Heimisdóttir eitt mark auk fjögurra stoðsendinga. Jóhanna átti eina stoðsendingu. Ásdís Guðmundsdóttir náði ekki að skora mark. Skara er í 10. sæti af 12 liðum með fjögur stig að loknum sex leikjum.
- Af öðrum úrslitum sænsku úrvalsdeildinni í gær má nefna að Sävehof vann H65 Höör, 31:26, í útivelli og situr þar með eitt í efsta sæti. Höör-liðið er í öðru sæti tveimur stigum á eftir.
- Stefán Scheving Th. Guðmundsson leikmaður ungmennaliðs Aftureldingar hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar í leik Aftureldingar U og HK U í 2. deild karla þann 15.11.2022. Í gær var staðfest að Stefán fari í eins leiks bann. Aganefnd tók mál hans fyrir á þriðjudag en frestaði þá afgreiðslu um sólarhring meðan velt var vöngum yfir hvort bannið ætti að ná yfir fleiri en einn leik.
- Spánverjinn Raúl Gonzalez er sagður verða næsti þjálfari ungverska meistaraliðsins Pick Szeged frá og með næsta sumri þegar Juan Carlos Pastor kveður eftir áratug í stóli þjálfara liðsins. Franska íþróttablaðið L´Equipe segir að samningur PSG við Gonzalez um þjálfun liðsins verði ekki framlengdur þegar núverandi samningur rennur út í vor. Þar af leiðandi sé leið hans greið til Szeged í Ungverjalandi. Franska blaðið heldur því ennfremur fram að Xavi Pascual núverandi þjálfari Dinamo Búkarest og fyrrverandi þjálfari Barcelona sé efstur á óskalista stjórnenda PSG en félagið er í eigu fjárfestingasjóðs katarska ríkisins.
- Patrick Groetzki skrifaði í gær undir nýjan samning við Rhein-Neckar Löwen. Samningurinn gildir til ársins 2026. Í samningslok verður hornamaðurinn búinn að vera í herbúðum félagsins í 19 ár.
- Auglýsing -