Einar Rafn Eiðsson, KA, var ekki eini handknattleiksmaðurinn sem skoraði 17 mörk á Íslandsmótinu í handknattleik á síðasta sunnudag. Breki Þór Óðinsson, leikmaður ÍBV U, gaf tóninn fyrr sama dag þegar hann skoraði 17 mörk fyrir ÍBV U gegn Víði í Garði, 42:32, í leik liðanna í 2. deild Íslandsmótsins í leik sem fram fór í Garði.
Breki Þór virðist kunna vel við sig á móti Víðismönnum því hann skorað 21 mark hjá þeim í fyrri viðureign ÍBV U og Víðis í 2. deildinni í leik sem fram fór í Vestmannaeyjum 29. okótber sl.
Jafnaði félagsmet Arnórs
KA hefur rifjað upp að Einar Rafn jafnaði félagsmet KA með mörkunum 17. Arnór Atlason skoraði 17 mörk fyrir KA gegn Þór 11. nóvember 2003. Nokkrum dögum áður skoraði Arnór 16 mörk í leik með KA gegn Haukum.
Mikalonis skoraði 17
Á sunnudaginn voru rétt átta ár síðan Egill Magnússon skorað 17 mörk fyrir Stjörnuna gegn Val í Olísdeildarleik. Í frétt handbolta.is var sagt að ekki væri vitað til þess að leikmaður hafi skorað 17 mörk í leik í Olísdeild karla milli þess sem Egill skoraði öll sín mörk 2014 og þangað til Einar Rafn hitti á stórleikinn gegn Gróttu. Handbolta.is var bent á það í gær að Egidijus Mikalonis, Víkingi, skoraði 17 mörk gegn Haukum í leik liðanna í Olísdeildinn í Víkinni 12. nóvember 2017.
Alfreð á metið
Eins og bent var á í frétt handbolta.is á sunnudaginn þá eru allir þessir handknattleiksmenn nokkuð frá meti Alfreðs Gíslasonar, þá leikmanns KR. Hann skoraði 21 mark gegn KA árið 1982 og bætti þá 19 ára gamalt met Ingólfs Óskarssonar, Fram, um eitt mark.