- Auglýsing -
- Sigtryggur Daði Rúnarsson skoraði fjögur mörk og átti tvær stoðsendingar þegar lið hans, Alpla Hard, vann Handball Tirol, 34:23, í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gær. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Hardliðsins sem er í öðru sæti deildarinnar með 12 stig eftir 13 leiki og er þremur stigum á eftir Krems.
- Hafþór Már Vignisson skoraði fjögur mörk og átti þrjár stoðsendingar þegar lið hans Empor Rostock steinlá fyrir Ludwigshafen, 39:29, í þýsku 2. deildinni í gærkvöld. Sveinn Andri Sveinsson skoraði ekki fyrir Rostockliðið að þessu sinni. Empor Rostock er í 18. sæti af 20 liðum með sjö stig eftir 15 leiki.
- Roland Eradze og félagar í HC Motor töpuðu fyrir Elbflorenz í Dresden í gærkvöld, 34:32, einnig í þýsku 2. deildinni í handknattleik. HC Motor er næst neðst 20 liða með sex stig eftir 15 leiki.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, skoraði ekki mark þegar PAUC gerði jafntefli á heimavelli, 34:34, við US Ivry í gærkvöld í frönsku 1. deildinni í handknattleik. PAUC er í fimmta sæti með 15 stig eftir 13 leiki. Ivry, sem Darri Aronsson er samningsbundinn hjá en leikur ekki með sem stendur vegna meiðsla, er í 13. sæti af 16 liðum deildarinnar með sex stig.
- Grétar Ari Guðjónsson varði átta skot, þar af eitt vítakast, 24%, þann tíma sem hann stóð í marki Sélestat gegn Montpellier í frönsku 1. deildinni í gærkvöld. Montpellier vann leikinn 33:28 og er ásamt PSG efst í deildinni. Sélestat rekur áfram lestina án stiga.
- Egypski landsliðsmaðurinn Yahia Omar er í sömu sporum og Haukur Þrastarson. Omar sleit krossband í leik með Veszprém gegn Wisla Plock í Meistaradeild Evrópu í fyrra kvöld. Hann verður þar af leiðandi ekki meira með Veszprém á tímabilinu. Einnig er ljóst að Omar leikur ekki með egypska landsliðinu á HM í næsta mánuði en hann hefur verið ein helsta kjölfesta landsliðsins og aðal örvhenta skytta þess.
- Auglýsing -