Elvar Örn Jónsson skaraði framúr öðrum leikmönnum íslenska landsliðsins í tapleiknum við Portúgal ytra í gærkvöld í undankeppni EM samkvæmt samantekt HBStatz tölfræðisíðunni.
Selfyssingurinn fékk 8,0 í einkunn þegar frammistaða hans í vörn og sókn er lögð saman. Bjarki Már Elísson og Viggó Kristjánsson eru næstir með 6,7 hvor um sig og Janus Daði Smárason er fjórði með 6,2.
Ef aðeins er litið til varnarleiksins eru Elvar Örn og Ýmir Örn Gíslason efstir með 7,7 í einkunn hvor. Aðrir leikmenn eru með frá sléttum fimm og upp í 5,8 í einkunn. Viggó er efstur af þeim með 5,8. Ýmir Örn kom ekkert við sögu í sóknarleiknum.
Bjarki Már er næstur á eftir Elvari Erni þegar aðeins er litið til sóknarleiksins. Bjarki Már er með 7,6 en Elvar Örn 7,9. Viggó er þriðji með 7,2 og Janus Daði fær 7.
Ágúst Elí Björgvinsson, sem stóð í marki íslenska landsliðsins lengst af í síðari hálfleik fær 6,2. Viktor Gísli Halgrímsson fékk hinsvegar 4,7 í einkunn.
Elvar Örn og Janus Daði áttu fjórar stoðsendingar hvor. Gísli Þorgeir Kristjánsson var með tvær.
Ýmir Örn átti flestar löglegar stöðvanir í vörninni, fimm. Elvar Örn var næstur með fjórar en alls náði íslenska landsliðið þrettán löglegum stöðvunum í leiknum samkvæmt upplýsingum tölfræðiveitunnar. Það telst ekki vera mikið.
Bjarki Már Elísson og Arnar Freyr Arnarsson náðu tveimur fráköstum hvor og voru atkvæðamestir leikmanna íslenska landsliðsins við þá iðju í leiknum í gærkvöld.
Nánar er hægt að rýna í tölfræðiþætti landsleiksins með því að smella hér.