„Við erum þokkalega ánægð með stöðu okkar eftir að hafa verið óheppin með meiðsli. Til dæmis misstum við Sigrúnu [Jóhannsdóttur] út eftir fyrsta leik mótsins. Hún er nýkomin til baka. Það munar miklu um hana upp á taktinn í leik okkar enda ein kjölfesta liðsins. Annars erum við með ungt lið og erum að læra. Meðalaldurinn í hópnum um 20 ár,“ sagði Jörgen Freyr Ólafsson Naabye einn þjálfara kvennaliðs FH þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir viðureign Aftureldingar og FH á föstudaginn.
Verðum að læra hratt
FH eins og önnur lið Grill 66-deildar eru komin í ríflega mánaða hlé frá leikjum. Mótið er um það bil hálfnað og FH-ingar eru í fjórða sæti með átta stig eftir sjö leiki með sitt unga lið sem er í uppbyggingarfasa. „Við verðum að læra hratt,“ sagði Jörgen ákveðinn sem er í þjálfarateymi liðsins með Guðmundi Pedersen og Magnúsi Sigmundssyni.
Verðum áfram með í baráttunni
„Við höfum alls ekki gefist upp í baráttunni um að fara upp úr deildinni. Vissulega er liðið ungt en leikmenn hafa tekið miklum framförum. Stígandinn hefur verið mjög góður,“ sagði Jörgen.
Fjórtán farnar á tveimur árum
FH var síðast í Olísdeildinni keppnistímabilið 2020/2021. Fjórtán leikmenn sem voru í hópnum þá hafa horfið á braut síðan, að sögn Jörgens. „Það hefur mikið breyst á tveimur árum og mikil endurnýjun átt sér stað. Margar yngri FH stelpur eru að koma upp í meistaraflokk sem er mjög skemmtilegt. Við viljum byggja upp í kringum þennan hóp og horfa til lengri tíma,“ sagði Jörgen Freyr Ólafsson Naabye einn þjálfara kvennaliðs FH.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deild kvenna.
Frábær myndasyrpa Brynju ljósmyndara frá leik Aftureldingar og FH er að finna á Facebooksíðu FH handbolta.