- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Annað hvort fleiri leikir eða sameinuð deild

Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari Aftureldingar. Mynd/Raggi Óla
- Auglýsing -

Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari kvennaliðs Aftureldingar segir að velta þurfi alvarlega fyrir sér fyrirkomulaginu á keppni Íslandsmóts kvenna í handknattleik. Annað hvort verði að fjölga leikjum í Grill 66-deildinni, vera til dæmis með þrefalda umferð, eða þá að sameina Olís- og Grill 66-deildirnar eins og hugmyndir voru uppi um í vor og HK lagði m.a. til á ársþingi HSÍ. Fleiri leikir séu nauðsynlegir, segir Guðmundur Helgi.

Sjö leikir síðan í september

„Mótið hefur staðið yfir síðan í september og við hjá Aftureldingu erum búin með sjö leiki. Nú stendur fyrir dyrum enn eitt fríið næstu fimm vikur. Þetta er ekki fyrsta og heldur ekki annað hléið sem gert er á Grill-deildinni,“ sagði Guðmundur Helgi þegar handbolti.is hitti hann að máli eftir síðustu viðureign Aftureldingar á árinu á föstudaginn. Næsti leikur Aftureldingar verður 15. janúar.

Fjölga eða sameina

„Annað hvort þarf að fjölga leikjum í Grillinu, og hafa þrefalda umferð, eða það sem ég vil helst að deildirnar verði sameinaðar og bæta í þriðja flokkinn í staðinn og vera þar með alvöru keppni með toppdómurum. Enda eru flestar stelpurnar í Grill 66-deildinni í 3. flokki.


Ég er viss um að þannig væri hægt að styðja vel við kvennahandboltann hér á landi,“ sagði Guðmundur Helgi sem hefur víðtæka reynslu jafnt sem leikmaður og síðustu árin sem þjálfari.

Viljum spila fleiri leiki

„Við getum fjölgað leikjum og spilað í Grill-deildinni þótt landsliðið sé við æfingar og keppni. Hlé í Grill-deildinni skiptir engu máli fyrir landsliðið. Við viljum bara spila miklu fleiri leiki. Við erum að leika 18 leiki frá því september og fram í byrjun apríl sem er alls ekki nóg að mínu mati. Fyrir utan sem það vantar meiri takt í deildarkeppnina. Það er alltaf verið að taka hlé,“ sagði Guðmundur Helgi ennfremur.

Lið Aftureldingar í Grill 66-deild kvenna keppnistímabilið 2022/23. Mynd/Raggi Óla

Einn leikur situr í mér

Afturelding er í öðru sæti Grill 66-deildar með 11 stig eftir sjö leiki og er tveimur stigum á eftir ÍR sem er í efsta sæti.


„Fyrir utan einn leik þá eru við á pari. Það var tapleikurinn við Fram U sem situr í mér. Við erum á réttri leið og að gera fína hluti hér í Mosó. Stelpurnar eru samviskusamar og duglegar við æfingar,“ sagði Guðmundur Helgi sem er ákveðinn og bætir við.

Jafnari leikir

„Mér finnst Grill 66-deildin skemmtilegri en Olísdeildin. Grillið er betri en oft áður, góðir leikmenn og hörkulið sem gerir deildina enn meira spennandi. Ég er ánægður með standardinn. Enginn leikur er gefinn fyrirfram og þannig á þetta vera. Leikirnir mega bara vera fleiri,“ sagði Guðmundur sem féll með lið sitt úr Olísdeildinni í vor. Engu að síður tókst að halda flestum leikmönnum.

Skemmtilegt og gott

„Veturinn í fyrra var uppbyggingavetur þar sem við vorum allt tímabilið að púsla saman nýju liði. Við erum komin með skemmtilegt lið en ég óska eftir tveimur til þremur leikmönnum til viðbótar. Það kemur með tíð og tíma enda er mikil stemning hjá okkur hér í Mosó og mjög skemmtilegt. Það er gott að vera í Mosó og vel haldið á málum,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson þjálfari kvennaliðs Aftureldingar.

Staðan og næstu leikir í Grill 66-deild kvenna.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -