- Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði þrjú mörk og var einu sinni vísað af leikvelli þegar GC Amicitia Zürich vann botnlið HSC Kreuzlingen, 30:26, á heimavelli í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gærkvöld. GC Amicitia Zürich er áfram í fimmta sæti deildarinnar.
- Íslendingaliðið Skara HF féll úr keppni í gær í sænsku bikarkeppninni í handknattleik kvenna eftir að liðið tapaði öðru sinni fyrir H 65 Höör í átta liða úrslitum, 35:31, á heimavelli og samanlagt 70:56. Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fimm mörk og Ásdís Guðmundsdóttir þrjú mörk. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir var ekki gjaldgeng með Skara í leiknum vegna þess að hún lék með Önnereds í bikarkeppninni í haust áður en hún gerðist liðsmaður Skara HF.
- Bjarki Már Elísson skoraði sex mörk fyrir Veszprém þegar liðið vann HÉP-Cegléd, 44:35, í ungversku 1. deildinni í handknattleik í gær. Veszprém hefur unnið 13 fyrstu leiki sína i deildinni og trónir í toppsætinu.
- Orri Freyr Þorkelsson skoraði þrjú mörk í fjórum skotum þegar Elverum vann Runar Sandefjord, 34:26, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik á heimavelli í gær. Elverum er í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig eftir 13 leiki og er átta stigum á eftir Kolstad sem er efst.
- Sigtryggur Daði Rúnarsson skorað eitt mark þegar Alpla Hard tapaði óvænt fyrir HC Linz, 32:30, í austurrísku 1. deildinni í handknattleik á útivelli í gær. Hannes Jón Jónsson er þjálfari Hard sem er í þriðja sæti deildarinnar með 21 stig eftir 14 leiki, fimm stigum á eftir Krems sem er efst.
- Auglýsing -