- Auglýsing -
- Domagoj Duvnjak var kjörinn handknattleiksmaður ársins 2020 í Króatíu. Duvnjak var í silfurliði Króata á EM í byrjun ársins, varð þýskur meistari með Kiel í vor og í sigurliði Meistaradeildar Evrópu í árslok. Igor Karacic hjá Kielce varð í öðru sæti og Marin Sego liðsmaður Montpellier hreppti þriðja sætið.
- Hinn þrautreyndi landsliðsmarkvörður Þjóðverja, Johannes Bitter, sagði í gær að það væri algjörlega út í bláinn að áhorfendum verði hleypt inn í keppnishallirnar á HM í handknattleik sem hefst í næstu viku. Bitter veiktist af kórónuveirunni í nóvember. Hann segist ekki vera laus við alla fylgikvilla. M.a. hefur hann ekki endurheimt bragðskynið. “Ég er sem betur fer laus við höfuðverk sem lengi plagaði mig á eftir,” sagði Bitter við Hamburger Abendblatt.
- Hinn skapríki þjálfari Veselin Vujovic hefur verið ráðinn þjálfari meistaraliðsins Borac Banja Luca í Bosníu. Hefur hann þegar tekið til starfa. Vujovic, sem er 59 ára gamall, hefur marga fjöruna sopið á ferli sínum, fyrst sem einn af betri handknattleiksmönnum sögunnar en síðar sem þjálfari með misjöfnum árangri. Hann þjálfaði síðast RK Zagreb en hætti í vor enda hafa þjálfarar þess liðs á síðustu árum búið við minna atvinnuöryggi en flestir aðrir þjálfarar. Vujovic, sem er af svartfellsku bergi brotinn, hefur í gegnum tíðina m.a. þjálfað landslið Júgóslavíu, Serbíu, Slóveníu og Norður-Makedóníu.
- Rússneska landsliðið í handknattleik, sem býr sig undir HM sem hefst í næstu viku, vann B-landslið Spánar, 28:26, í vináttuleik í gær.
- Auglýsing -