Allt er í kalda koli innan landsliðs Tékklands í handknattleik karla og eins og staðan er innan þess um þessar mundir er óvíst hvort það taki þátt í heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst í næstu viku. Ef svo verður þá virðist ljóst að Tékkar senda ekki sitt sterkasta lið til keppni.
Átta leikmenn voru greindir smitaðir af kórónuveirunni við komu til Færeyja um miðja vikuna. Þess utan eru báðir þjálfaranir, Jan Filip og Daniel Kubes, með veiruna. Þeir fóru ekki með til Færeyja. Fleiri leikmenn er sýktir en óvíst er hversu margir þeir eru vegna þess að Handknattleikssamband Tékklands hefur ekki gefið upp fjölda smitaðra, aðeins sagt að margir séu smitaðir. Eins og ástandið er nú hefur hópnum verið skipt niður í þrjá flokka. Æfingar eru sagðar að mestu liggja niðri.
Menn vona það besta en búa sig undir það versta. Enn hefur enginn handknattleiksmaður verið kallaður inn í hópinn sem er utan þeirra 35 leikmanna sem landsliðsþjálfararnir völdu til þátttöku fyrir miðjan desember.
Ef Tékkar heltast úr lestinni verður kallað á varaþjóð til mótsins. Norður-Makedóníumenn eru efstir á þeim lista.