Meistaraþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson framlengdi á dögunum samning sinn um þjálfun á karlaliði Vals í handknattleik. Viðbótin við samninginn gerir að verkum að Snorri Steinn er samningsbundinn Val út keppnistímabilið vorið 2025, eftir því sem fram kemur í tilkynningu á heimasíðu Vals í dag.
Snorri Steinn tók við þjálfun karlaliðs Vals sumarið 2017.
Leiktíðina 2019/2020 tóku hjólin að snúast af krafti. Valur var krýndur deildarmeistari í Olísdeildinni vorið 2020 eftir að öllu var skellt í lás í kjölfar þess að covidveira tók að leika lausum hala. Valur varð Íslandsmeistari vorið 2021, bikarmeistari þá um haustið, eftir að bikarkeppninni hafði verið frestað um vorið. Í vor sem leið varð Valur Íslandsmeistari og deildarmeistari undir stjórn Snorra Steins auk þess að vinna bikarkeppnina annað sinn í röð í mars.
Sem stendur tróna lærisveinar Snorra Steins á toppi Olísdeildar og eru auk þess komnir í átta liða úrslit bikarkeppninnar. Einnig hafa Valsmenn gert það gott í riðlakeppni Evrópudeildarinnar og sitja í fjórða sæti síns riðils þegar sex umferðum er lokið af tíu.
Snorri Steinn hafnaði í öðru sæti í kjöri félagsmanna í Samtökum íþróttafréttamanna á þjálfara ársins 2022.