Handbolti.is heldur áfram að kynna þá leikmenn sem keppa fyrir Íslands hönd á HM í handknattleik sem hefst í Egyptalandi á morgun, miðvikudag. Flautað verður til fyrsta leiks Íslands á fimmtudaginn þegar Ísland mætir landsliði Portúgals í New Capital íþróttahöllinni í Kaíró.
Tuttugu leikmenn eru í landsliðshópnum sem kom til Kaíró í gærkvöld.
Næstur í röðinni er Sigvaldi Björn Guðjónsson. Hlekkur á fyrri kynningar er að finna neðst í þessari grein og svo verður þar til kynningum lýkur um það bil þegar flautað verður til leiks á HM í Egyptalandi.
Handbolti.is verður í Kaíró meðan HM stendur yfir og fylgist með keppninni eftir föngum og ströngustu sóttvörnum.
Sigvaldi Björn Guðjónsson
Sigvaldi Björn er 27 ára gamall örvhentur hornamaður með pólska meistaraliðinu Vive Kielce. Hann kom til félagsins í sumar sem leið frá Elverum í Noregi. Með Elverum varð Sigvaldi Björn tvisvar sinnum norskur bikarmeistari.
Sigvaldi Björn flutti til Danmerkur með fjölskyldu sinni 12 ára gamall. Hann hóf að æfa handknattleik með HK í Kópavogi á barnsaldri. Eftir nokkurra ára veru í Danmörku flutti foreldrar Sigvalda Björns heim til Íslands en hann varð eftir ytra þar sem hann lagði stund á framhaldsnám auk þess að æfa og leika handknattleik. Hann hefur aldrei leikið með félagi í efstu deild á Íslandi.
Sigvaldi lék með Vejle, Bjerringbro/Silkeborg en var síðast hjá Århus Håndbold um þriggja ára skeið áður en hann fluttist til Elverum sumarið 2018. Hjá Elverum átti Sigvaldi Björn afar góðu gengi að fagna og var á meðal aðsópsmestu leikmanna liðsins, jafnt í norsku úrvalsdeildinni og í Meistaradeild Evrópu. Sigvaldi Björn varð markahæsti leikmaður Elverum á síðasta tímabili, jafnt í norsku deildinni sem í Meistaradeild Evrópu.
Eins og að framan sagði gekk Sigvaldi Björn til liðs við Vive Kielce í sumar og samdi til loka leiktíðar 2021. Í byrjun desember skrifaði hann undir framlengingu á starfssamningi sínum við Kielce. Núverandi samningur gildir þar með fram á mitt árið 2022. Kielce leikur í Meistaradeild Evrópu og sem stendur í efsta sæti síns riðils. Sigvaldi hefur komið sterkur inn í liðið í vetur og tekið þátt í öllum leikjum þess, jafn í pólsku deildinni og í Meistaradeild Evrópu.
Sigvaldi Björn lék sinn fyrsta A-landsleik gegn norska landsliðinu 8. júní 2017. Alls hefur hann leikið 30 landsleiki og skorað 55 mörk. Sigvaldi Björn tók þátt í stórmóti í fyrsta sinn fyrir tveimur árum þegar hann var í íslenska landsliðinu á HM í Þýskalandi og Danmörku. Hann skoraði 15 mörk og tók þátt í öllum átta leikjum íslenska landsliðsins í keppninni. Eins var Sigvaldi Björn í íslenska landsliðinu á EM fyrir ári síðan og skoraði 15 mörk í sjö leikjum.
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á HM2021 verður gegn landsliði Portúgals á fimmtudaginn 14. janúar. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
Fyrri kynningar: Ágúst Elí Björgvinsson, Björgvin Páll Gústavsson, Viktor Gísli Hallgrímsson, Bjarki Már Elísson, Ólafur Andrés Guðmundsson, Elvar Örn Jónsson, Janus Daði Smárason, Alexander Petersson, Arnór Þór Gunnarsson, Viggó Kristjánsson.