Andrea Jacobsen og félagar í EH Aalborg tóku í dag upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir áramót í dönsku 1. deildinni í handknattleik. Þær unnu sem sagt 11. leikinn í röð í heimsókn sinni á Fjón til Gudme Hk, 31:24. Álaborgarliðið var sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:9.
Andrea skoraði fjögur mörk í leiknum og var að vanda með beittustu sóknarleikmönnum liðsins sem hefur nú 22 stig í efsta sæti eftir 12 leiki.
Berta Rut Harðardóttir var einnig í sigurliði í dönsku 1. deildinni í dag þegar Holstebro lagði Søndermarkens IK, 29:23, á útivelli. Berta Rut skoraði ekki mark að þessu sinni. Holstebro var með fjögurra marka forskot eftir fyrri hálfleik, 14:10.
Holstebro og Bjerringbro er í öðru og þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir EH Aalborg.
Á næsta laugardag fær EH Aalborg liðsmenn Ejstrup-Hærvejen í heimsókn á sama tíma og Holstebro tekur á móti harðsnúnum liðsmönnum Hadsten Håndbold.