- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Leika með sorgarbönd vegna andláts Karls G. Benediktssonar

Karl G. Benediktsson, landsliðsþjálfari, fær flugferð eftir sigur á Svíum 12:10 á HM í Tékkóslóvakíu 1964. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.
- Auglýsing -

 

Karl G. Benediktsson, landsliðsþjálfari, fær flugferð eftir sigur á Svíum 12:10 á HM í Tékkóslóvakíu 1964. Mynd/einkasafn Sigmundur Ó. Steinarsson.

Leikmenn íslenska landsliðsins í handknattleik munu spila með sorgarbönd þegar liðið mætir Portúgal á HM í kvöld, vegna fráfalls Karls G. Benediktssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara og landsliðsmanns, sem lést 8. desember í Hveragerði, 89 ára að aldri. Útför Karls fer fram frá Hallgrímskirkju mánudaginn 16. janúar.

Karl var faðir nútíma handknattleiks á Íslandi. Brotið var blað í íslenskum handknattleik þegar Karl kom heim frá Danmörku 1960, þar sem hann stundaði nám í íþróttafræðum í Vejle á Jótlandi. Karl kom þá heim með nýjar hugmyndir, sem áttu eftir að gjörbreyta handknattleiknum á Íslandi og má segja að nútímahandknattleikur hafi þá verið tekinn upp á Íslandi. Karl lét lið sín leika kerfisbundinn handknattleik. Hann lét menn leika í föstum stöðum og tímasetningar voru í leiknum. Þegar hann kom með sínar hugmyndir og fylgdi þeim fast eftir, varð bylting í íslenskum handknattleik – fyrst með Framliðið og síðan með landsliðið. Undir stjórn Karls þróuðu leikmenn Fram upp línuspil og leikmáti liðsins gerði það afar sigursælt. Leikmáti liðsins breyttist í kerfisbundinn handknattleik. 

 Karl er maðurinn sem lagði grunninn að „Gulltímabili” karlaliðs Fram í handknattleik 1962-1972 er liðið náði að stöðva sigurgöngu hins öfluga meistaraflokks FH – og varð Íslandsmeistari sjö sinnum á ellefu árum eftir geysilega harða og oft spennandi baráttu við FH-inga, sem er eitt sögulegasta tímabil í handknattleikssögu Íslands. 

 „Karl var alltaf að koma fram með nýjar hugmyndir, sem gáfu árangur,” sagði Sigurður Einarsson, sem var línumaður í hinu sigursæla Framliði og landsliðinu. Sigurður sagði að FH-liðið hafi verið geysilega vel mannað á þessum árum, en Framarar hafi lagt það að velli með leikskipulagi. „Karl þurfti ekki endilega að vera með bestu einstaklingana til að gera lið að meisturum,” sagði Sigurður.

  Undir stjórn Karls urðu Framarar Íslandsmeistarar 1962, 1963, 1964 og 1967, og síðan aftur þegar Karl kom á nýjan leik til Fram 1969-1970; fimm sinnum. Þá gerði hann mikla byltingu hjá Víking, sem varð meistari í fyrsta skipti 1975.

 * Karl lék 13 landsleiki fyrir Ísland á árunum 1958 til 1963; var tvisvar fyrirliði. Hann var leikmaður á HM í Austur-Þýskalandi 1958 og Vestur-Þýskalandi 1961 og þjálfari á HM 1964 í Tékkóslóvakíu og 1974 í Austur-Þýskalandi.

 Karl stjórnaði landsliðinu í 42 leikjum árin 1964-1968 og 1973-1974.

 Hann stjórnaði landsliðinu 1966-1967 með Reyni Ólafssyni og Ragnari Jónssyni í fjórum leikjum og með Birgi Björnssyni og Gunnlaugi Hjálmarssyni í 25 leikjum 1976-1978. Karl lék með í þessum fjórum leikjum í HM og var þjálfari þriggja þeirra.

 Blessuð sé minning Karls. Íslenskur handknattleikur sér á eftir miklum og góðum starfskrafti. Svo afkastasamur var Karl að hann þjálfaði þrjú lið í 1. deild á sama keppnistímabilinu; sat upp í áhorfendabekkjum þegar þau mættust.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -