- Auglýsing -
- Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði fjögur mörk og Ásdís Guðmundsdóttir eitt þegar Skara HF vann Lugi, 29:22, á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld. Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði ekki fyrir Skara-liðið að þessu sinni. Skara vann þar með sinn þriðja sigur í röð í sænsku úrvalsdeildinni og er nú í komið upp í 7. sæti deildarinnar með 14 stig eftir 14 leiki.
- Aldísi Ástu var hælt á hvert reipi á heimasíðu félagsins eftir leikinn í gær og hún sögð hafa verið primusmótor liðsins.
- Lettinn Dainis Krištopāns hefur samið við þýska 1. deildarliðið MT Melsungen og kemur til félagsins á næsta sumri frá PSG. Hann lýkur þriggja ára veru sinni hjá franska meistaraliðinu við lok leiktíðar. Krištopāns var í sigurliði Vardar Skopje í Meistaradeild Evrópu vorið 2019.
- Danski markvörðurinn Simon Gade hefur samið við þýska liðið Hannover-Burgdorf. Hann kemur til félagsins frá Aalborg Håndbold í sumar. Gade sá fram á að fá ekki mörg tækifæri hjá Álaborgarliðinu þegar Niklas Landin flytur heim til Danmerkur í sumar og gengur til liðs við Aalborg.
- Norska handknattleikskonan Veronica Kristiansen hefur sagt frá því að hún sé ekki kona einsömul um þessar mundir og eigi von á barni í sumar. Kristiansen er ein reyndasta handknattleikskona Noregs um þessar mundir. Hún var ekki með á EM í nóvember vegna meiðsla en hugsanlega hefur skýringin verið önnur þegar öllu er á botninn hvolft. Kristiansen er fjórða norska landsliðskonan sem er í barnsburðarleyfi um þessar mundir. Hinar eru Camilla Herrem, Sanna Solberg og Kari Brattset Dale sem ýmist hafa nýlega alið barn eða eiga von á sér fljótlega. Kristiansen er 32 ára gömul væntir síns fyrsta barns.
- Mohammad Siavoshi markvörður íranska landsliðsins greip í tómt þegar hann ætlaði að klæðast markvarðarpeysu sinni fyrir leikinn við Chile á HM í handknattleik í Kraká í gærkvöld. Einhverra hluta vegna varð peysan eftir á hótelberberginu. Siavoshi var þar með að leika í treyju þar sem stóð ÍRAN í stað nafn hans. Það kom heldur betur ekki að sök því Siavoshi átti stórleik, var með 43% markvörslu og var sennilega maðurinn sem reið baggamuninn þegar upp var staðið. Íran vann með eins marks mun og á þar með góða möguleika að komast í milliriðlakeppni HM. Með Írönum í riðli eru auk landsliðs Chile, Spánverjar og Svartfellingar.
- Auglýsing -