- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Framundan er ný keppni, nýr leikur“

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í viðtali við RÚV í sandroki fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í Kaíró í dag. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

„Tíminn hefur verið takmarkaður til undirbúnings. Við fengum klukkustundaræfingu í gær og förum á aðra æfingu síðdegis í dag,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, þegar handbolti.is hitti hann að máli rétt eftir hádegið fyrir utan hótel landsliðsins í Kaíró í Egyptalandi.


Annað kvöld hefur íslenska landsliðið þátttöku á HM í handknattleik með viðureign við Portúgal, þriðju viðureign þjóðanna á liðlega vikutíma. „Við nýttum æfinguna í gær til þess að fara vel yfir varnarleikinn. Í dag verður sjónum fyrst og fremst beint að sóknarleiknum, fyrst á fundi og síðan á æfingu,“ sagði Guðmundur Þórður kom með sveit sína til Kaíró á mánudagskvöldið.


„Allt frá því að leiknum lauk á sunnudaginn á Ásvöllum þá höfum við farið afar vel yfir leik portúgalska liðsins og velt vöngum yfir hvar þeirra áhersluatriði liggja gegn okkur, jafnt í vörn sem sókn,“ sagði Guðmundur og bætti við að honum væri ljóst að portúgalska liðið hafi e.t.v. ekki teflt fram öllum trompunum í leikjunum tveimur í undankeppni EM, fyrst í Porto á miðvikudaginn fyrir rúmri viku og á Ásvöllum á sunnudaginn.

Helmings möguleikar

„Við viljum útfæra okkar leik betur. Leikirnir tveir eru að baki og úrslitin í þeim eru komin úr okkar huga. Framundan er ný keppni, nýr leikur. Ég reikna með svakaleik tveggja liða sem þekkja orðið hvort annað mjög vel. Ég tel að það séu helmingslíkur okkar á sigri í leiknum. Liðin eru það jöfn,“ sagði Guðmundur Þórður ennfremur.


Sumir horfa til leiks Íslands og Portúgals á morgun sem úrslitaleiks í riðlinum. Hann skeri úr um hvort þeirra fer með fjögur stig inn í milliriðlakeppnina. Guðmundur hefur ekki breytt um takt og vill fara varlega í allar slíkar vangaveltur á þessu stigi þótt hann viðurkenni að vera aðeins byrjaður að gjóa augunum að landsliði Alsír sem verður næsti andstæðingur á laugardaginn. „Við byrjum bara á þessu verkefni og hlökkum til þess.“


Þótt Guðmundur og lærisveinar vilji ýta leikjunum sem að baki eru aftur fyrir sig þá er ljóst að það var ákveðinn léttir fyrir þjálfarann og leikmenn að sýna hvað í liðinu býr á góðum degi eins og það sýndi á sunnudaginn, lengst af. Guðmundur Þórður tekur undir þau orð og bætir við.

„Sá leikur var ekki alslæmur framan af. Á þeim tíma sköpuðum við færi en vandinn var sá að þau voru ekki nýtt sem skildi. Leikurinn var betri eftir á að hyggja. Síðan þá höfum við farið afar vel yfir okkar leik og Portúgalar örugglega líka. Svona er þetta bara. Við hlökkum til leiksins,” sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -