Nítján þúsund fermetra fjölnota þjóðarhöll fyrir innanhúss íþróttir rís sunnan við gömlu Laugardalshöllina, upp að Suðurlandsbraut, og á að verða tilbúin haustið 2025. Kostnaður er áætlaður 15 milljarðar króna. Vonir standa til þess að áður en febrúar verður á enda liggi fyrir samkomulag á milli ríkis og borgar um kostnaðarskiptingu byggingaframkvæmda.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynntu stöðu og næstu skref við byggingu hallarinnar á fundi skömmu fyrir hádegið. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun næsta árs.
Framundan er að vinna að breytingu á deiliskipulagi svo hægt verði að ljúka hönnun mannvirkisins og hefja útboð. Stefnt er á að þessi atriði liggi fyrir í lok mars.
8.600 áhorfendur á leikjum
Íþróttahöllin á að nýtast til innanhúss íþrótta, fyrir tónleika og einnig sem kennsluhúsnæði en m.a. gert ráð fyrir að fjórum kennslusölum í húsinu. Rými verður 8.600 áhorfendur á kappleikjum og 12 þúsund á tónleikum.
Þjóðarhöllin mun leysa um bráðan vanda í húsnæðismálum landsliðanna í handknattleik og körfuknattleik sem hafa um árabil verið á undanþágu með leiki í undankeppni stórmóta í núverandi Laugardalshöll sem orðin er hart nær 60 ára. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að með byggingunni væri horft af stórhug til framtíðar.
Í skýrslu framkvæmdanefndar um þjóðarhöll kemur fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg þannig að unnt sé að nýta megnið af gólfi þjóðarhallar frá degi til dags til íþróttaæfinga en höllin rúmi sömuleiðis stóra íþróttaviðburði, landsliðsleiki og tónleika. Einnig mun þjóðarhöllin uppfylla kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda þannig að hægt verði að spila leiki á stórmótum hér á landi.
Sem fyrr segir er stefnt á að framkvæmdir hefjist í upphafi næsta árs. Þeim á að verða lokið á haustið 2025. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, sagði á blaðamannafundi að allir væru á einu máli um að einhenda sér í verkefnið og vinna það með hraði en vanda um leið til verka.