Landslið Barein, undir stjórn Arons Kristjánssonar, er komið í milliriðakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik karla eftir sigur á Belgum, 30:28, í þriðju og síðustu umferð H-riðils í Malmö í kvöld. Bareinar tryggðu sér þar með annað sæti í riðlinum og fara áfram með Dönum og Belgum. Túnisbúar munu væntanlega sitja eftir nema að þeir leggi heimsmeistarana síðar í kvöld.
Leikmenn Barein urðu að fá að minnsta kosti annað stigið úr leiknum til þess að eiga möguleika á sæti í milliriðlum. Þeir voru með yfirhöndina í viðureigninni við Belga frá upphafi til enda og voru til að mynda þremur mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 15:12.
Fara í forsetabikarinn
Norður Makedóníumenn verða að bíta í það súra epli að fara í keppnina um forsetabikarinn eftir níu marka tap fyrir Argentínu í F-riðli í Kraká í Póllandi.
Hvorugt liðið hefur verið sannfærandi á mótinu fram til þessa og því var reiknað með jöfnum leik. Sú varð aldrei raunin. Argentínumenn voru mikið sterkari frá byrjun og unnu sannfærandi sigur, 35:26. eftir að hafa verið sjö mörkum yfir í hálfleik, 18:11. Kostadin Petrov, línumaður Þórs á Akureyri, skoraði eitt mark fyrir landslið Norður Makedóníu í leiknum.
Ljóst er að Kiril Lazarov á talsvert í land með að byggja upp öflugt landslið hjá Norður Makedóníumönnum.
Argentína í milliriðla
Argentína fylgir þar með Noregi og Hollandi eftir í milliriðil þrjú þar sem andstæðingarnar verða Þýskaland, Serbía og Katar. Þjóðverjar tóku Alsírbúa í kennslustund í Katowice í kvöld og unnu með 16 marka mun, 37:21. Alsír fer þar með í keppni um forsetabikarins.
Egyptar unnu Bandaríkjamenn í Jönköping, 35:16, og tryggðu sér efsta sæti í G-riðli. Bandaríkjamenn ættu hinsvegar að ná sæti í milliriðlakeppninni nema að Marokkó vinni stórsigiur á Króötum á eftir, nokkuð sem er ekki sennilegt.
HM 2023 – leikjadagskrá, staðan, riðlakeppni