Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði fyrir Portúgal í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik í New Capital Sports Hall í Kaíró í kvöld, 25:23. Einstaklega döpur nýting á opnum færum, sendingamistök fleira í þeim dúr varð íslenska landsliðinu fyrst og fremst að falli að þessu sinni. Þar ráku hver mistökin á fætur öðrum og ljóst að margt þarf að laga. Alls gerði liðið 15 sóknarmistök á móti átta hjá portúgalska liðinu.
Leikurinn byrjaði vel fyrir íslenska liðið sem skoraði tvö fyrstu mörkin. Varnarleikurinn var strax mjög góður með þá Ými Örn Gíslason og Arnar Freyr Arnarsson í miðjunni. Sóknarleikurinn gekk vel á uppafsmínútum tíu sem skilað fimm mörkum í sjö fyrstu upphlaupum. Íslenska liðið virtist vera með sjórn á leiknum á báðum endum vallarins þótt markvarslan væri ekki sem besta.
Þegar á leið fóru gamal kunnug vandmál að gera vart við sig eins og slök nýting opinna færa, sendingar voru ónákvæmar og vítakast fór í súginn. Portúgalar unnu sig inn í leikinn. Með tveimur hraðaupphlaupsmörkum á skömmum tíma komust þeir tveimur mörkum yfir í fyrsta sinn, 9:7. Íslenska liðið mátti teljast gott að lenda ekki þremur mörkum undir í framhaldinu.
Eftir nokkurt þóf á báða bóga jafnaði Ólafur Andrés Guðmundsson metin í 9:9, þegar réttar fjórar mínútur voru til hálfleiks.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði vítakast mínútu fyrir loka hálfleiksins og kom í veg fyrir að potúgalska liðið næði tveggja marka forskoti á ný. Lokasókn Íslands rann út sandinn með misheppnaðri sendingu nokkrum sekúndum áður en leiktíminn var úti. Portúgal var marki yfir í hálfleik, 11:10. Segjast verður eins og eftir fyrri hálfleikinn að íslenska landsliðið gat verið þakklát fyrir að vera ekki langt undir eins og síðustu 20 mínúturnar voru.
Lítt batnaði sóknarleikurinn framan af síðari hálfleik. Hver mistökin ráku önnur og þaui flest af ódýrari gerðinni. Gísli Þorgeir Kristjánsson náði einna helst að sprengja upp vörn Portúgala með hraða sínum. Hann skoraði og átti stoðsendingar og vann vítakast. Það dugði skammt þegar hver mistökin ráku önnur hjá félögum hans. Eftir aðeins sex mínútur var munurinn orðinn fjögur mörk, 15:11 og þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum var munurinn orðinn fimm mörk, 18:13, og útlitið svart fyrir íslenska liðið. Guðmundur Þórður Guðmundsson kallaði menn til skrafs og ráðagerða áður en allir botn datt úr.
Ágúst Elí Björgvinsson kom í markið aftur og tók nokkur skot og ákefð kom í vörnin. Ágúst hélt íslenska liðinu inn í leiknum og því tókst að minnka muninn í tvö mörk, 18:16, rétt fyrir miðjan fyrri hálfleik. Tíu mínútum fyrir leikslok var munurinn þrjú mörk, 22:19, og útlitið ekkert að skána. Portúgalska liðið náði fimm marka forskoti þegar um níu mínútur voru til leiksloka, 24:19. Þennan mun tókst aldrei að vinna upp. Þegar Sigvalda Birni Guðjónssyni brást bogalistin í hraðaupphlaupi þremur mínútum fyrir leikslok þegar hann gat minnkað muninn í tvö mörk þá minnkaði voninn um endasprett sem dygði e.t.v. til að ná öðru stiginu.
Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 6/3, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Elvar Örn Jónsson 3, Alexander Petersson 2, , Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Ómar Ingi Magnússon 2/1, Ólafur Andrés Guðmundsson 2, Ýmir Örn Gíslason 1, Arnar Freyr Arnarsson 1.
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 7, Viktor Gísli Hallgrímsson 4.