Handknattleikssamband Íslands, HSÍ, undirritaði nýverið samstarfssamning við Nettó. „Það er mikið fagnaðarefni að jafn öflugt fyrirtæki eins og Nettó komi til samstarfs við handboltahreyfinguna á Íslandi og vonast HSÍ til þess að eiga gott samstarf við Nettó í framtíðinni,“ segir í tilkynningu frá HSÍ.
„Við í handboltahreyfingunni gleðjumst yfir því að Nettó hafi valið að vinna með okkur og verði með vörumerki sitt á keppnissetti allra landsliða HSÍ. Öflugt starf HSÍ byggir á góðum tengslum við atvinnulífið, og það að fyrirtæki eins og Nettó sem er öflugur bakhjarl íþrótta á Íslandi komi til liðs við okkur hjá HSÍ staðfestir það,” segir Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ, í fyrrgreindri tilkynningu.
Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa segir að Nettó sé stoltur stuðningsaðili handknattleikssambands Íslands. Það sé markmið Nettó að styðja við margþætt íþrótta, æskulýðs- og forvarnarstarf á landsvísu sem stuðlar að heilbrigðum lífsstíl. Þessir þættir endurspeglast í samstarfinu við HSÍ. Á næstu vikum munum við fara í sameiginlegt átak að fjölga ungum iðkendum í handbolta sem er mjög jákvætt og í takti við stefnu Nettó sem hefur undanfarin ár lagt sérstaka áherslu á styrkveitingar sem snúa að íþróttaiðkun barna og ungmenna.