„Við ætluðum okkur að verða heimsmeistarar á mótinu en því miður þá gekk það ekki upp. Þar með setjum við bara stefnuna á EM að ári í München. Ég vona að sem flestir áhorfendur komi með okkur þangað,“ sagði Ýmir Örn Gíslason leikmaður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í kvöld eftir fjögurra marka sigur á Brasilíumönnum, 41:37, í sjötta og síðasta leik Íslands á HM í Svíþjóð.
Íslenska liðið lenti undir í fyrri hálfleik og fékk á sig 22 mörk. Liðinu tókst hinsvegar að snúa hressilega við taflinu í síðari hálfleik. Ýmir Örn sagði að aldrei hafi komið til greina að tapa síðasta leiknum
„Tilfinningin fyrir leikinn var mjög góð og menn staðráðnir í að fara út á völlinn og vinna. En því miður þá vorum við eftir á allan fyrri hálfleik. Í hálfleikshléinu þá töluðum við okkur saman um að snúa við taflinu. Okkur tókst eftir það að þétta leik okkar, hlaupa meira og nýta færin betur. Allt lagðist þetta á eitt, herslumunurinn sem vantaði í fyrri hálfleik skilaði sér í síðari hálfleik,“ sagði Ýmir Örn.
„Það var ákveðinn karakter hjá okkur að komast yfir og vinna leikinn í síðari hálfleik. Niðurstaðan mótsins er hinsvegar vonbrigði,“ sagði Ýmir Örn sem átti vart orð til þess að lýsa þeim gríðarlega stuðningi sem íslenska landsliðið fékk á mótinu frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu.
„Við eigum ekki nógu stór íþróttahús heima til þess að taka á móti hópnum á leik. Það er alveg magnað að vita til þess hversu margir hafa fylgt okkur eftir og stutt við bakið á okkur. Ég er ólýsanlega þakklátur,“ sagði Ýmir Örn Gíslason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is.
HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan