Heimsmeistarar Danmerkur unnu afar öruggan sigur á Egyptum í Malmö í kvöld, 30:25, og höfnuðu þar með í efsta sæti fjórða milliriðils. Danska landsliðið mætir þar með Ungverjum í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í Stokkhólmi á miðvikudaginn. Milliriðlakeppni HM lauk í kvöld.
Norðmenn gerðu sér lítið fyrir og urðu fyrstir til þess að leggja lærisveina Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu í milliriðli þrjú, 28:26, í Katowice. Noregur varð þar með í efsta sæti riðilsins og leikur við Spán í átta liða úrslitum í Gdansk á miðvikudaginn.
Grannþjóðirnar Frakkar og Þjóðverjar mætast í átta liða úrslitum. Í fjórðu viðureign átta liða úrslita eigast við Svíar og Egyptar. Sigurliðin í átta liða úrslitum leika í undanúrslitum á föstudaginn, annarsvegar í Stokkhólmi og hinsvegar í Gdansk í Póllandi.

Eins og áður segir var sigur Dana á Egyptum afar öruggur. Frábær fyrri hálfleikur skilaði danska liðinu fimm marka forskoti í hálfleik 17:12. Egyptum tókst ekki að snúa við taflinu í síðari hálfleik og ná fram öðrum eins háspennuleik og er liðin mættust í átta liða úrslitum á HM fyrir tveimur árum. Þetta var fyrsta tap Egypta á HM að þessu sinni.
Danmörk – Egyptaland 30:25 (17:12).
Mörk Danmerkur: Mathias Gidsel 8, Simon Pytlick 8, Mikkel Hansen 6, Magnus Saugstrup Jensen 4, Emil Jakobsen 2, Niclas Vest Kirkeløkke 1, Johan á Plógv Hansen 1.
Mörk Egyptalands: Mohab Abdelhak 6, Mohammad Sanad 4, Yehia Elderaa 4, Hassan Kaddah 3, Ali Mohamed 3, Seif Elderaa 3, Mohsen Mahmoud 2.
Noregur – Þýskaland 28:26 (18:16).
Mörk Noregs: Gøran Johannessen 5, Sander Sagosen 3, Kristian Bjørnsen 3, Sander Overjordet 3, Harald Reinkind 3, Christian O`Sullivan 3, Sebastian Barthold 2, Petter Øverby 2, Magnus Gullerud 2, Kevin Maagero Gulliksen 1, Magnus Abelvik Rød 1.
Mörk Þýskalands: Juri Knorr 8, Rune Dahmke 4, Johannes Golla 3, Jannik Kohlbacher 3, Patrick Groetzki 2, Luca Witzke 2, Djibril Mbengue 1, Julian Koster 1, Kai Häfner 1, Christoph Steinert 1.