- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eru kröfurnar of miklar? Eru markmiðin of háleit?

Leikmenn íslenska landsliðsins bera saman bækur sínar eftir sigurinn á Brasilíu á sunnudaginn. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Íslenska landsliðið í handknattleik karla lauk þátttöku sinni á heimsmeistaramótinu á sunnudaginn með sigri á Brasilíumönnum í Scandinavium íþróttahöllinni í Gautaborg. Raunar lá fyrir þegar menn vöknuðu að morgni þess dags að þörf væri á kraftaverki ef leikir íslenska landsliðsins ættu að verða fleiri í keppninni. Kraftaverkin létu á sér standa, því miður.
Frábærir stuðningsmenn létu sitt ekki eftir liggja, jafnt í með- sem andbyr á HM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Niðurstaðan er 12. sæti og um leið sú staðreynd að íslenska landsliðið hefur ekki komist í átta liða úrslit á heimsmeistaramóti í 12 ár. Árangurinn núna er á pari við flest HM-mót sem hafa síðan fylgt í kjölfarið á tveggja ára fresti. Sigrarnir og töpin misjafnlega mörg, keppnisfyrirkomulagið ekki alltaf eins. Kannski er niðurstaðan nú á pari við fyrsta uppbyggingamótið, HM 2019? Alltént betri en 20. sætið í Egyptalandi fyrir tveimur árum.
  • Fullvíst er að flestir ef ekki allir leikmenn íslenska landsliðsins ætluðu sér að ná lengra á mótinu að þessu sinni, hvað sem hver segir. Vonbrigði strákanna okkar eru þess vegna mest og skiljanleg. Þeir mættu mótbyrnum af fagmennsku.
Strákarnir okkar þakka fyrir frábæran stuðning eftir leikinn við Svía. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Að þessu sinni er skuldinni skellt á 15 til 20 mínútna kafla í leiknum við Ungverja í Kristianstad. Vissulega væri staðan önnur ef sá leikur hefði unnið en ekki tapast. Þá blasti nú við leikur gegn Dönum í átta liða úrslitum. Flestir væru himinsælir og búnir að koma sér fyrir í Stokkhólmi.
Chema Rodríguez landsliðsþjálfari Ungverjalands fyrir miðri mynd ásamt leikmanni og aðstoðarmanni eftir sigur á Brasilíu á HM. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Af hverju tapaðist leikurinn við Ungverja? Hvernig stendur á því að ungversk landslið er svo oft örlagavaldur íslenska lansliðsins eða þjálfarans? Svo merkilega vill einmitt til að síðasti tapleikur danska landsliðsins á heimsmeistaramóti var gegn Ungverjum fyrir sex árum. Síðan hefur danska landsliðið leikið 25 leiki í röð á HM án taps. Næst mæta Danir Ungverjum.
  • Voru það fjölmiðar eða fjölmiðlamenn sem spenntu bogann of hátt fyrir mótið? Sjálfur skal ég viðurkenna að ekki reyndist vera innistæða fyrir bjartsýni minni. Hafi leikmenn haft pata af bjartsýninni tel ég þó fullvíst að hún hafi ekki valdið þeim andvökunóttum. Engu að síður heiti ég því að vera svartsýnn að ári þegar EM fer fram, hvort sem handbolti.is verður á floti eða ekki.
Þjálfarateymi íslenska landsliðsins, Guðmundur Þórður Guðmundsson, Gunnar Magnússon, Ágúst Þór Jóhannsson ásamt Jóni Birgi Guðmundssyni sjúkraþjálfara. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Gangrýni eða gagnrýnum spurningum verður ekki svarað með, hroka, yfirlæti, öskrum og skömmum. Slíkt leiðir engan til góðs, götuna fram eftir veg. Ekki er til of mikils ætlast að landsliðsþjálfari með áratugareynslu sýni yfirvegun þótt slái í bakseglið. Hann getur ekki búast að allir hafi jafn yfirgripsmikla þekkingu á íþróttinni og hann. Sú þekking er ekki tínd upp af götunni.
  • Telji landsliðsþjálfari sig eiga eitthvað óuppgert við menn er rétt að hann geri þá reikninga upp á réttum stöðum en forðist að hengja bakara fyrir smið eingöngu til að fá útrás fyrir vonbrigði sín og reiði.
  • Til lítils er að vonast eftir meiri umfjöllun ef ekki má velta vöngum eða ef einhverjir vilja forðast að gleypa allt hrátt sem borið er á borð.
Varnarjaxlinn Ýmir Örn Gíslason gengur vonsvikinn af leikvelli. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Nú þarf að setjast yfir þá staðreynd að árangur á HM undanfarin rúman áratug hefur nánast verið endurtekið efni. Eru kröfurnar of miklar? Eru markmiðin of háleit? Hvað laðaði fram frábæran árangur á EM í fyrra, mitt í öllum erfiðleikunum?
  • Undir vorið standa fyrir dyrum síðustu fjórir leikirnir í undankeppni EM 2024 karla og vonandi næsta stórmót að ári liðnu með sínum hefðbundnu væntingum.

Ívar Benediktsson, [email protected].

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -