Norður Makedóníumaðurinn Kostadin Petrov verður ekki með Þór í fleiri leikjum í Grill 66-deildinni á leiktíðinni. Samkomulag náðist á milli Petrov og Þórs um að hann fái að ganga til liðs við HC Alkaloid í heimalandi sínu. Petrov hefur síðustu vikur verið með landsliði Norður Makedóníu á heimsmeistaramótinu í handknattleik og lék sinn síðasta leik á mótinu í fyrradag.
Fram kemur í tilkynningu Þórs í dag að Petrov kveðji félagið af persónulegum ástæðum vegna veikinda í fjölskyldunni.
Petrov var einn besti leikmaður Þórs á fyrri hluta keppnistímabilsins. Hann skoraði 73 mörk í 10 leikjum Grill 66-deildarinnar og er markahæsti leikmaður liðsins ásamt Arnóri Þorra Þorsteinssyni.
Þess má geta að Kiril Lazarov landsliðsþjálfari Norður Makedóníu og þekktasti handkattleiksmaður þjóðarinnar er einn helsti bakhjarl HC Alkaloid-liðsins.
Handbolti.is sagði frá í gær að Þór hafi sagt upp samningi við Króatann Josip Vekic.
Þór leikur næst í Grill 66-deild karla eftir viku þegar HK kemur í heimsókn í Höllina á Akureyri.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildunum.