- Auglýsing -
Nýliðar FH í Olísdeild kvenna urðu fyrir áfalli fyrir helgina þegar markahæsti leikmaður Olísdeildar kvenna, Bitney Cots, meiddist á mjöðm. Af þessari ástæðu lék hún ekki með FH í gær gegn HK þegar keppni í Olísdeild kvenna hófst á nýjan leik.
Jakob Lárusson, þjálfari FH, sagði við handbolta.is að Cots fari í skoðun hjá lækni á morgun, mánudag. Ekki sé ljóst hversu alvarleg meiðslin eru. „Ég reikna ekki með henni í leikinn gegn Val á þriðjudagskvöld og tel ólíklegt að hún verði með okkur á móti Fram á næsta laugardag,“ sagði Jakob en sem nærri má geta er það mikil blóðtaka fyrir FH-liðið að vera án síns helsta leikmanns enda liðið ungt að árum og veitir ekki af allri þeirri reynslu sem möguleg er.
Cots, sem er landsliðkona Senegal og var m.a. í æfingabúðum með liðinu í desember til undirbúnings fyrir forkeppni Ólympíuleikanna, er á sínu öðru keppnistímabili með FH. Áður en keppni hófst í Olísdeildinni í gær var Cots markahæst í deildinni með 25 mörk í þremur leikjum.
- Auglýsing -