Danski handknattleiksmaðurinn Mikkel Hansen er kominn í ótímabundið veikindaleyfi hjá félaginu sínu, Aalborg Håndbold. Hann þjáist af streitu og álagi sem líkja má við kulnun í starfi. Óvíst er hvenær Hansen mætir út á leikvöllinn aftur. Aalborg Håndbold og Hansen segja frá þessu í yfirlýsingu í morgun. Ákvörðunin er tekin að höfðu samráði við lækna.
Blóðtappi í lungum
Hansen hefur verið undir miklu álagi um langt skeið enda einnig þekktasti og sigursælasti íþróttamaður Danmerkur á undanförnum árum. Hann veiktist alvarlega fyrir ári þegar hann fékk blóðtappa í lungu eftir aðgerð vegna meiðsla í hné. Af þeim sökum var Hansen frá keppni í nærri hálft ár.
Sterkt kastljós
Auk þess þá hefur verið í mörg horn að líta utan vallar sem innan hjá Hansen um árabil. Hann flutti heim til Danmerkur í sumar eftir 10 ára í Frakklandi. Flutningnum fylgdi sterkt kastljós fjölmiðla og almennings og talsvert álag á högum fjölskyldunnar. Einnig var Hansen áberandi á heimsmeistaramótinu sem lauk á dögunum með sigri danska landsliðsins, þriðja mótið í röð. Ljóst var undir lok mótsins að nokkuð var af Hansen dregið.
Við heimkomuna frá heimsmeistaramótinu var mælirinn orðinn fullur hjá Hansen. Honum er nauðugur einn kostur, að jafna sig andlega og líkamlega eftir mikið álag um langt skeið, segir m.a. yfirlýsingu Aalborg Håndbold og Mikkel Hansen. Þar er óskað eftir að Hansen verði sýndur skilningur meðan hann leitar sér heilsubótar.