Gunnar Steinn Jónsson tryggði Stjörnunni annað stigið gegn Haukum á Ásvöllum í kvöld, 33:33. Hann jafnaði metin úr vítakasti eftir að leiktíminn var út. Vítakastið var dæmt eftir að dómarar leiksins, Svavar Ólafur Pétursson og Bjarki Bóasson höfðu metið sem svo að að Stefán Rafn Sigurmannsson leikmaður Hauka hafi hindrað Tandra Má Konráðsson í að taka aukakast þegar leiktíminn var að renna út. Dómararnir skoðuðu upptöku af atvikinu áður en þeir felldu sinn dóm til að vera vissir í sinni sök.
Stjarnan er þar með í þriðja til fimmta sæti deildarinnar ásamt Aftureldingu og Fram með 17 stig. Haukar eru í sjöunda sæti með 14 stig. Leikmenn liðsins hljóta að telja sig hafa tapað einu stigi því þeir voru með tögl og hagldir fram eftir öllum síðari hálfleik. Þeir voru t.d. fjórum mörkum yfir, 26:22, og manni fleiri þegar 14 mínútur voru til leiksloka.
Baráttugleði Stjörnunnar
Stjarnan sýndi hinsvegar baráttugleði á lokakaflanum með þvi að vinna upp forskotið jafnt og þétt allt þar til í lokin. Manni færri síðustu tvær mínúturnar börðust Stjörnumenn eins og ljón og uppskáru eins og þeir sáðu til.
Haukar voru marki yfir í hálfleik, 16:15. Stjörnuliðið var sterkara framan af og var m.a. þremur mörkum yfir, 8:5, um miðjan fyrri hálfleik.
Gleðitíðindi
Þráinn Orri Jónsson og Aron Rafn Eðvarðsson léku með Haukum á nýjan leik eftir meira en árs fjarveru. Þráinn Orri vegna slitins krossbands og Aron Rafn eftir höfuðhögg. Sérlega gleðilegt var að sjá þessa leikmenn með eftir langt hlé.
Mörk Hauka: Andri Már Rúnarsson 8/1, Stefán Rafn Sigurmannsson 6/3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4/1, Heimir Óli Heimisson 4, Össur Haraldsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 3, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Þráinn Orri Jónsson 1, Adam Haukur Baumruk 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 9/1, 26 % – Matas Pranckevicius 2, 20%.
Mörk Stjörnunnar: Tandri Már Konráðsson 8, Gunnar Steinn Jónsson 5/2, Hergeir Grímsson 4, Pétur Árni Hauksson 3, Aðalsteinn Örn Aðalsteinsson 3, Þórður Tandri Ágústsson 3, Starri Friðriksson 3/2, Brynjar Hólm Grétarsson 2, Hjálmtýr Alfreðsson 1, Björgvin Þór Hólmgeirsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 12/1, 32% – Arnór Freyr Stefánsson 3/1, 33%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.