- Auglýsing -
- Andrea Jacobsen skoraði fjögur mörk í stórsigri liðs hennar, EH Alaborg, á DHG Odense, 37:21, í næst efstu deild danska handknattleiksins í gær. EH Aalborg er efst í deildinni með 30 stig eftir 16 leiki en þetta var fimmtándi sigur liðsins í röð.
- Hannes Jón Jónsson mátti sætta sig við að sjá lið sitt, Alpla Hard, tapa fyrir Füchse með eins marks mun á útivelli í austurrísku 1. deildinni í handknattleik í gær, 31:30. Hard er í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig, er átta stigum á eftir Krems sem er efst. Raul Santos, sem árum saman lék í Þýskalandi, reyndist leikmönnum Alpla Hard erfiður í leiknum. Hann skoraði 12 mörk.
- Guðmundur Bragi Ástþórsson tognaði í læri fyrir nokkru síðan og hefur þar af leiðandi ekki leikið með Haukum í tveimur síðustu leikjum liðsins í Olísdeild karla.
- Sænski landsliðsmaðurinn Niclas Ekberg tognaði á ökkla í viðureign Kiel og Kielce í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í fyrrakvöld. Talið er líklegt að hann verði frá keppni um nokkurn tíma af þessum sökum.
Ungverski markvörðurinn Martin Nagy sem var í Íslandsmeistaraliði Vals vorið 2021 yfirgefur þýska liðið Gummersbach í vor eftir tveggja ára veru. Ekki liggur fyrir hvert leið Nagy liggur næst.
- Sænski handknattleiksmaðurinn Jonathan Svensson og einn öflugasti leikmaður sænska meistaraliðsins Ystad IF kveður félagið í sumar og gengur til liðs við HC Erlangen á tveggja ára samningi.
- Norður Makedóníumaðurinn Filip Kuzmanovski hefur kvatt herbúðir Hannover-Burgdorf og gengið til liðs við HSG Wetzlar. Samningur Kuzmanovski við Wetzlar gildir til loka keppnistímabilsins. Kuzmanovski hefur leikið með Hannover-Burgdorf frá árinu 2020.
- Auglýsing -