Valur hefur kallað línumanninn Jóel Bernburg heim í bækistöðvarnar eftir nokkurra mánaða dvöl í herbúðum Gróttu sem lánsmaður. Grótta segir frá í morgun.
„Jóel kom á lán til okkar í sumar og hefur staðið sig mjög vel í herbúðum Gróttu. Hann myndaði línumannspar með Hannesi Grimm og stóð vaktina vel í varnarleik Gróttu. Hann skoraði 16 mörk fyrir Gróttu og var með að meðtali þrjá löglegar stöðvanir í hverjum leik,“ segir í tilkynningu Gróttu.
Frestur til mánaðamóta
Félög sem eru með leikmenn í útláni hafa tækifæri til næstu mánaðarmóta til að fá þá til baka í heimahagana. Eftir 1. mars verður það ekki gerlegt fyrr en keppni á Íslandsmótinu verður lokið. Fjórir dagar líða frá því að óskað er formlega eftir að leikmaður skili sér heim í bækistöðvar þangað til hann er gjaldgengur með liðinu í leikjum Olísdeildarinnar. Jóel fær ekki leikheimild með Val í Poweradebikarnum vegna þess að hann hefur þegar leikið fyrir Gróttu í keppninni.
Valsmenn búa sig undir átökin sem framundan eru á þrennum vígstöðvum, í Olísdeildinni, í Poweradebikarnum og síðasta en ekki síst í Evrópudeildinni.
Valur stendur í ströngu í kvöld þegar hann mætir TM Benidorm í Origohöllinni. Flautað verður til leiks klukkan 19.45.
Tix.is – smellið hér til þess að kaupa aðgöngumiða á leikinn.