- Auglýsing -
- Cemal Kütahya fyrirliði tyrkneska landsliðsins í handknattleik karla og fimm ára sonur hans létust í jarðskjálftanum í landinu fyrir rúmri viku. Tyrkneska handknattleikssambandið sagði frá þessum sorgartíðinum í gærmorgun. Eiginkonu Kütahya og tengdamóður er enn leitað. Eiginkonan er gengin fjóra mánuði með annað barn þeirra hjóna.
- Kütahya lék einnig með landsliði Tyrkja í strandhandbolta og var m.a. markahæstur á Evrópumótinu sem fram fór sumarið 2021.
- Síðast lék Kütahya með Hatay Büyükșehir Belediyespo sem er í efsta sæti tyrknesku A-deildarinnar með 28 stig eftir 15 leiki. Einnig lék hann um tíma í Rúmeníu. Kütahya átti ekki sæti í tyrkneska landsliðinu sem kom hingað til lands í júní 2019 og mætti íslenska landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins.
- Franski handknattleiksmaður Luc Abalo hefur ákveðið að binda enda á handknattleiksferilinn. Abalo, sem er 38 ára gamall, er einn sigursælasti handknattleiksmaður Frakklands og var hægri hornamaður landsliðsins í nærri tvo áratugi. Undanfarið ár hefur Abalo leikið með Zeekstar Tokyo í Japan eftir að hafa verið um skeið með Elverum í Noregi tímabilið 2020/2021. Á blómaskeiði sínu á handknattleiksvellinum lék Abalo með US Ivry, Ciudad Real, Atlético Madrid og Paris Saint-Germain.
- Sænski línumaðurinn Fredric Pettersson hefur ákveðið að gefa ekki oftar kost á sér í sænska landsliðið. Pettersson er 34 ára gamall og leikur nú með Toulouse í Frakklandi. Hann á að baki 103 landsleiki og lék sinn fyrsta landsleik fyrir 13 árum. Pettersson var í sigurliði Svía á EM fyrir ári og silfurliðum EM 2018 og HM 2021. Einnig var Pettersson með sænska landsliðinu sem hafnaði í fjórða sæti á HM í síðasta mánuði.
- Bjarki Már Elísson var valinn í lið 14. umferðar ungversku 1. deildarinnar í handknattleik eftir leiki síðustu helgar. Veszprém vann Balatonfüredi, 41:20, og skoraði Bjarki Már sex mörk í leiknum en hann lék aðeins takmarkaðan hluta leiksins. Frakkinn Nedim Remli, sem gekk til liðs við Veszprém í síðustu viku var einnig valinn í lið umferðarinnar.
- Auglýsing -