- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Eitt er betra en ekkert – próf hindra þátttöku með landsliðinu

Díana Dögg Magnúsdóttir í marktækifæri í leik í þýsku 1. deildinni. Mynd/BSV Sachsen Zwickau
- Auglýsing -

Díana Dögg Magnúsdóttir skoraði sex mörk, þar af þrjú úr vítaköstum, þegar lið hennar BSV Sachsen Zwickau gerði jafntefli við HSG Bad Wildungen Vipers, 27:27, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í Zwickau í kvöld. Liðin eru jöfn að stigum, með 10 hvort, eftir 15 umferðir, í 10. og 11. sæti. Ellefu umferðir eru eftir en 14 lið eru í deildinni.


BSV Sachsen Zwickau var marki yfir í hálfleik, 15:14. Eins og stundum áður á leiktíðinni var slök markvarsla Akkilesarhæll liðsins. „Stig er alltaf betra en ekkert,“ sagði Díana Dögg í kvöld en vonir stóðu til þess að ná í tvö stig enda er hvert stig dýrmætt í keppninni í neðri hluta deildarinnar.


Díana Dögg átti fjórar stoðsendingar, skapaði eitt færi, stal boltanum þrisvar og vann þrjú vítaköst og vann andstæðingana þrisvar af leikvelli. „Ég var tekin úr umferð að hluta til en það var staðið mjög ákveðið á móti mér allan leikinn,“ sagði Díana Dögg ennfremur en hún er fyrirliði BSV Sachsen Zwickau.

Ekki með landsliðinu vegna lokaprófa

Díana Dögg var ekki í landsliðshópnum sem valinn var í vikunni vegna tveggja leikja við B-landslið Noregs í byrjun mars. Aðspurð svaraði hún að framundan væru tvö lokapróf í meistaranámi í flugvéla- og eldflaugaverkfræði (Luft- und Raumfahrttechnik) um mánaðarmótin, það síðara 3. mars. „Ég gat ekki gefið kost á mér í landsliðið að þessu sinni vegna prófanna sem eru á sama tíma.“

Sigur hjá liði Söndru

TuS Metzingen, liðið sem Sandra Erlingsdóttir leikur með, vann Blomberg-Lippe á heimavelli í kvöld, 41:31, og er þar með komið upp í fjórða sæti þýsku 1. deildarinnar. Sandra lék ekki með liðinu í kvöld af persónulegum ástæðum en er væntanleg til leiks í næsta leik gegn meisturum Bietigheim á föstudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -