„Ég held að lykilatriðið fyrir Val verði að nýta vel dauðafæri gegn sterku markvarðapari franska liðsins. Fyrstu línuskotin, fyrstu hornaskotin, hraðaupphlaupin og vítaköstin eiga eftir að gefa tóninn fyrir framhaldið því franska liðið leikur mjög sterka vörn með þunga leikmenn. Þar af leiðandi á ég ekki von á að Valur nái mörgum súpergóðum færum út úr uppstilltum sóknarleik. Þess vegna verður afar mikilvægt að nýta vel þau færi sem gefast og forðast að skjóta markverði PAUC í stuð,“ sagði Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japans og Valsari mikill í samtali við handbolta.is.
Dagur var til svara á blaðamannafundi Vals í dag fyrir leikinn mikilvæga við PAUC í Evrópudeildinni annað kvöld.
Þungir og sterkir
„Í vörninni mun miklu máli skipta fyrir Valsmenn að leysa tveir á tvo stöður. Leikmenn PAUC er þungir og sterkir. Línumennirnir eru miklir trukkar. Þeir geta valdið Valsliðinu miklum erfiðleikum því leikmenn Vals eru hvorki þeir þyngstu né þeir hávöxnustu.
Valsmenn munu örugglega keyra upp hraðann eins og kostur verður á.
Á móti kemur að Frakkarnir munu væntanlega freista þess að draga úr hraðanum og tefja leikinn eins og þeim frekast verður unnt,“ sagði Dagur og bætti við að um væri að ræða úrslitaleik um þriðja sætið í spennandi riðli.
Baráttan um þriðja sætið
Liðið í fjórða sæti B-riðils mætir efsta liði A-riðils, Montpellier frá Frakklandi, í 16-liða úrslitum en liðið í þriðja sæti leikur annað hvort við Göppingen frá Þýskalandi eða Kadetten Schaffhausen frá Sviss sem berjast um annað sæti A-riðils.
Allir standa með Val
„Það er allt undir í leiknum. Fyrir bæði lið eru um úrslitaleik að ræða í þessum ótrúlega riðli sem er jafnari en aðrir í keppninni. Á móti hefur komið að það er skemmtilegt að hafa fengið fimm leiki hingað heim sem allir hafa skipt miklu máli. Þetta er skemmtilegt og gott fyrir íslenska handboltann enda sér maður að allir standa með Val í þessum leikjum,“ sagði Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japans í handknattleik karla í samtali við handbolta.is.
Áhugasamir geta orðið sér út um miða hjá Tix.is.
Staðan í B-riðli:
Flensburg | 8 | 7 | 0 | 1 | 270:230 | 14 |
Ystads IF | 8 | 5 | 1 | 3 | 261:251 | 11 |
Valur | 8 | 3 | 1 | 4 | 263:264 | 7 |
PAUC | 8 | 3 | 0 | 5 | 235:244 | 6 |
FTC | 8 | 2 | 2 | 4 | 264:278 | 6 |
Benidorm | 8 | 2 | 0 | 6 | 243:269 | 4 |
Leikir 21. febrúar: Valur - PAUC kl. 19.45 TM Benidorm - FTC, kl. 19.45. Flensburg - Ystads, kl. 17.45. Leikir 28. febrúar: Ystads IF - Valur, kl. 17.45. FTC - Flensburg kl. 19.45. PAUC - Benidorm, kl. 19.45.
Staðan í A-riðli:
Montpellier | 8 | 7 | 0 | 1 | 271:238 | 14 |
Göppingen | 8 | 6 | 0 | 2 | 268:223 | 12 |
Kadetten | 8 | 5 | 0 | 3 | 253:242 | 10 |
Benfica | 8 | 3 | 0 | 5 | 235:235 | 6 |
Presov | 8 | 2 | 0 | 6 | 223:253 | 4 |
Veszprémi KKFT | 8 | 1 | 0 | 7 | 226:285 | 2 |