- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Guðmundur Þórður er hættur þjálfun landsliðsins

Guðmundur Þórður Guðmundsson er hættur þjálfun íslenska karlalandsliðsins. Hann stýrði landsliðinu í síðasta sinn í leik gegn Brasilíu á HM í Gautaborg í síðasta mánuði. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Guðmundur Þórður Guðmundsson er hættur störfum sem landsliðsþjálfari í handknattleik karla. Þetta kemur fram í tilkynningu sem HSÍ sem sendi frá sér fyrir nokkrum mínútum. Þar kemur fram að samkomulag hafi orðið um starfslok Guðmundar og þau séu gerð í sátt beggja aðila.

Guðmundur Þórður endurnýjaði samning við HSÍ snemma á síðasta ári og þá var gert ráð fyrir að hann stýrði landsliðinu fram yfir Ólympíuleikana í París 2024 að því tilskyldu að landsliðið næði að tryggja sér farseðil á leikana.

Ekki kemur fram í yfirlýsingunni hver tekur við starfinu af Guðmundi Þórði en framundan eru tveir leiki í undankeppni EM 8. og 12. mars við Tékkland, í Brno í Tékklandi og í Laugardalshöll.

Guðmundur Þórður tók við þjálfun karlalandsliðs Íslands í þriðja sinn á ferlinum í febrúar 2018 og hefur sinnt starfinu síðan.

Hann var áður landsliðsþjálfari frá 2001 til 2004 og aftur frá 2008 til 2012. Undir stjórn Guðmundar Þórður vann íslenska landsliðið silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlaun á EM 2010 en það eru einu verðlaunin sem íslenska karlalandsliðið hefur unnið á stórmóti.


Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„HSÍ og Guðmundur Þ. Guðmundsson hafa komist að samkomulagi um starfslok Guðmundar sem landsliðsþjálfari karla.

Samkomulagið er í sátt beggja aðila og ekki stendur til að tjá sig frekar um innihald þess.

Guðmundur Þ. Guðmundsson hefur þjálfað íslenska landsliðið í samtals 14 ár. Hann hefur sem þjálfari komið íslenska landsliðinu inn á 16 stórmót, þar af þrenna Ólympíuleika.

Þegar Guðmundur tók við landsliðinu í þriðja skiptið árið 2018 var sett fram það markmið að koma landsliðinu aftur í fremstu röð, að verða meðal átta bestu landsliða heims. Á EM 2022 í Ungverjalandi náðist það markmið er liðið endaði í 6. sæti.

Guðmundur Þ. Guðmundsson hefur náð frábærum árangri með íslenska landsliðið og nægir að nefna silfur á Ólympíuleikunum 2008 í Beijing, bronsverðlaunum á EM 2010 í Austurríki, 4. sæti á EM 2002 í Svíþjóð, 7. sæti á HM 2003 í Portúgal, 6. sæti á HM 2011 í Svíþjóð og 5. Sæti á Ólympíuleikunum 2012 í London og 6. sæti á EM 2022 í Ungverjalandi.

Guðmundur er eini þjálfarinn í sögu íslensks handbolta sem hefur unnið til verðlauna á stórmóti með íslenska karlalandsliðinu í handbolta.

Þá er hann eini handknattleiksþjálfarinn í sögunni sem farið hefur með landslið tveggja mismunandi þjóða í úrslitaleik á Ólympíuleikum, landslið Íslands sem vann silfur, og landslið Danmerkur sem varð Ólympíumeistari í Ríó 2016.

Fyrir hönd HSÍ viljum við þakka Guðmundi fyrir mjög vel unnin störf sem landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta yfir tímabil sem spannar 22 ár.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -