- Auglýsing -
„Úrslitin er rosalega svekkjandi en ég samt rosalega stoltur af varnarleiknum og þeirri vinnu sem við lögðum í hann,“ sagði Ýmir Örn Gíslason sem fór einu sinni sem oftar hamförum í hjarta íslensku varnarinnar í dag í tapleiknum gegn Sviss, 20:18, á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Egyptalandi.
„Varnarleikurinn var frábær og verður ekki tekinn af okkur en svekkelsið er mikið að það hafi ekki skilað sigri. En það þýðir ekkert annað en að halda áfram þótt við hugsum kannski aðeins um þetta í kvöld. Síðan er það bara áfram veginn, í næsta leik,“ sagði Ýmir Örn ennfremur og bætti við.
„Því miður gekk þetta ekki hjá okkur. Markvörður þeirra var frábær og varnarleikurinn einnig. Þeir eru góðir í að blokka og markvörðurinn varði vel eftir að vörnin hafði unnið vel fyrir hann. Þetta var erfitt hjá okkur frá byrjun.
Hver og einn þarf að skoða hvernig á því stendur að okkur tekst ekki að nýta betur þau færi sem við fengum. Ég veit að menn munu gera það. Hver og einn mun skoða það sem að þeim snýr og síðan er það áfram gakk,“ sagði Ýmir Örn Gíslason sem er klár í slaginn við Frakka á föstudaginn.
- Auglýsing -