„Við ætlum að bæta upp fyrir það sem gerðist í síðustu viðureign. Við verðum einfaldlega að leika kerfin betur,“ sagði Elvar Örn Jónsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is. Elvar Örn verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í dag þegar það tekur á móti Tékkum í Laugardalshöll klukkan 16 í undankeppni EM.
„Kerfin hafa ekki breyst. Við verðum einfaldlega að spila þau af meiri krafti og áræðni,“ sagði Elvar Örn og bætir við að ekkert í leik Tékka hafi komið á óvart. Engu að síður hafi þeim tekist að slá leikmenn íslenska landsliðsins út af laginu, og það svo um munaði.
Spurður hvort hann fyndi fyrir mikill pressu að standa sig í síðari leiknum við Tékka í dag sagði Elvar að pressan væri eðlileg og ekkert ný. Hinsvegar gerðu hann og félagar kröfur til sín um að leika almennilega í dag.
„Mesta er pressan frá okkur sjálfum. Við viljum bara gera mikið, mikið betur og sýna hvað við getum,“ sagði Elvar Örn Jónsson í samtali við handbolta.is.
Viðureign Íslands og Tékklands hefst í Laugardalshöll í dag klukkan 16. Uppselt er á leikinn sem verður sá fyrsti sem fram fer í Höllinni síðan í byrjun nóvember 2020. Útsending frá leiknum verður á vegum RÚV auk þess sem handbolti.is mun fylgjast með af mætti.