- Auglýsing -
- Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var næst markahæstur í finnska landsliðinu í gær með fimm mörk í tapleik fyrir Slóvökum, 32:25, í síðari viðureign liða þjóðanna í Hlohovec í Slóvakíu í gær. Slóvakar og Finnar eru í þriðja og fjórða sæti 2. riðils undankeppni EM með tvö stig hvorir.
- Jóhanna Margrét Sigurðardóttir skoraði þrjú mörk og átti tvær stoðsendingar og Aldís Ásta Heimisdóttir skoraði eitt mark og gaf eina stoðsendingu þegar lið þeirra Skara HF vann Hallby, 29:21, á heimavelli Hallby í gær í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Skara er í áttunda sæti deildarinnar og er orðið nokkuð öruggt um sæti í úrslitakeppninni í vor.
- Elías Már Halldórsson þjálfari Fredrikstad Bkl. krækti í annað stigið í viðureign við Larvik í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik kvenna í gær. Leikið var á heimavelli Fredrikstad Bkl. Alexandra Líf Arnarsdóttir lék með Fredrikstad Bkl. en skoraði ekki. Fredrikstad Bkl. situr í sjöunda sæti deildarinnar með 19 stig að loknum 19 leikjum þegar þrjár umferðir eru eftir.
- Harpa Rut Jónsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir GC Amicitia Zürich þegar liðið tapaði fyrir SPONO EAGLES með fjögurra marka mun, 28:24, á útivelli í svissnesku A-deildinni í handknattleik í gær. Sunna Guðrún Pétursdóttir varði sjö skot, 21%, í marki GC Amicitia Zürich sem er í sjötta og neðsta sæti í efri hluta keppni deildarinnar.
- Berta Rut Harðardóttir og félagar í Holstbro halda áfram að vera í toppbaráttu dönsku 1. deildarinnar í handknattleik þrátt fyrir talsverða fjárhagserfiðleika félagsins. Holstebro vann Ringsted á útivelli í gær með tveggja marka mun og er áfram í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir EH Aalborg sem er efst. Berta Rut skoraði ekki mark í sigurleiknum á Ringsted sem lauk, 32:30.
- Guntis Pilpuks leikmaður Harðar á Ísafirði skoraði þrjú mörk fyrir landslið Lettlands í tapleik fyrir Ítölum í 8. riðli undankeppni EM í handknattleik karla í Valmiera í Lettlandi í gær. Rolands Lebedev markvörður Harðar kom ekkert við sögu í leiknum. Sat á varamannbekknum frá upphafi til enda. Lettar reka lestina í riðlinum en Ítalir eru næst neðstir með fjögur stig.
- Auglýsing -