Norska úrvalsdeildarliðið Kolstad frá Þrándheimi varð í gærkvöld norskur meistari í handknattleik karla í fyrsta sinn í sögu sinni. Með liðinu leika íslensku landsliðsmennirnir Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson.
Kolstad tryggði sér titilinn í Sør Amfi í Arendal með sigri á heimaliðinu, 29:23, og hefur þar með unnið alla 19 leiki sína í deildinni á tímabilinu. Þrjár umferðir eru óleiknar en enginn möguleiki er á að meistari síðasta árs, Elverum sem situr í öðru sæti, takist að ná Kolstad á endasprettinum. Elverum hefur unnið norska meistaratitilinn sex sinnum á síðasta áratug.
Góðar minningar í Sør Amfi
Svo skemmtilega vill til að Kolstad vann sinn fyrsta stóra titil í sögu sinni einnig í Sør Amfi-íþróttahöllinni í Arendal fyrir fáeinum vikum þegar leikið var til úrslita í bikarkeppninni.
Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði fimm mörk í leiknum í gær, þar af eitt úr vítakasti. Janus Daði var ekki í leikmannahópi liðsins að þessu sinni. Hafþór Már Vignisson skoraði ekki mark fyrir Arendal-liðið.
Fram til þessa er besti árangur Kolstad í úrvalsdeildinni 4. sætið 2020 og 2022.
Kraftmikil uppbygging
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Kolstad liðinu undanfarið ár. Fjársterk fyrirtæki hafa lagt félaginu lið og stefnan sett á að Kolstad verði á næstu árum eitt allra sterkasta handknattleikslið í Evrópu í karlaflokki. Safnað hefur verið saman nokkrum af bestu handknattleiksmönnum Noregs um þessar mundir ásamt Íslendingunum tveimur. Enn bætist í hópinn í sumar þegar Sander Sagosen, fremsti handknattleiksmaður Noregs á síðustu árum, kemur til liðs við félagið.
Norðmenn eiga þegar eitt besta kvennalið í evrópskum handknattleik, Vipers, sem hefur orðið Evrópumeistari síðustu tvö ár.