- Auglýsing -
- Auglýsing -

IHF hefur ekki gefist upp á nýja boltanum

Með nýjum bolta vill IHF útrýma notkun harpix í handbolta. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Þrátt fyrir vægast afar blendnar viðtökur við nýja handboltanum, sem skal nota án harpix, hafa stjórnendur Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, ekki gefist upp við að nota boltann á mótum. Sambandið hefur kostað miklu til við þróun boltans á undanförnum árum. IHF hefur tilkynnt að boltinn verði notaður á öllum leikjum heimsmeistaramóts 19 ára landsliða karla sem fram fer í Króatíu í ágúst.


Íslenska landsliðið verður á meðal þátttakenda á HM í Svartfjallalandi. Heimir Ríkarðsson annar þjálfara íslenska landsliðsins staðfesti við handbolta.is að honum og HSÍ hafi borist tilkynning um notkun boltans á mótinu sem fram fer frá 2. til 13. ágúst.


Boltinn var fyrst notaður fyrir alvöru á HM 18 ára landsliða í Norður Makedóníu á síðasta sumri og hlaut fremur neikvæðar viðtökur. M.a. gagnrýndi Þórir Hergeirsson landsliðsþjálfari Noregs notkun boltans og að stórmót í kvennaflokki væri notað til tilrauna með nýjan bolta.


Íslenska landsliðið tók þátt í HM 18 ára landsliða kvenna í fyrrasumar og hafnaði áttunda sæti. Áður en undirbúningur hófst fyrir mótið fékk HSÍ nokkurn fjölda bolta sendan svo hægt væri að nota hann við æfingar og búa leikmenn undir að leika með honum. Reikna má með nýrri sendingu af boltum frá IHF fyrir sumarið.


Engum sögum fer af því hvort boltinn verður einnig notaður á HM 21 árs landsliða karla sem haldið verður frá 20. júní til 3. júlí í Grikklandi og Þýskalandi hvar íslenska landsliðið verður einnig í eldlínunni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -