Aron Pálmarsson fór meiddur af leikvelli í síðari hálfleik í viðureign Aalborg Håndbold og Mors-Thy í dönsku úrvalsdeildinni. Á vef Nordjyske segir að svo virðist sem hann hafi meiðst á læri. Alltént kom Aron ekkert meira við sögu en hann varð markahæsti leikmaður liðsins í sigrinum, 26:23, með sjö mörk auk þriggja stoðsendinga.
Af þessum ástæðum ríkir óvissa um þátttöku Arons í leiknum við GOG í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu á fimmtudaginn í Álaborg.
Vart er á meiðslalista Álaborgarliðsins bætandi. Leikstjórnandinn Felix Claar fékk högg á nefið snemma í leiknum við Mors-Thy á laugardaginn. Óttast er að hann sé nefbrotinn. Þegar voru fjarverandi vegna veikinda eða meiðsla Mikkel Hansen, Buster Juul, Lukas Sandell og Jesper Nielsen.