Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður gengur til liðs við EH Aalborg í sumar. Rétt eftir að Ringkøbing Håndbold hafði tilkynnt í morgun að hún ætlaði að söðla um í sumar sagði Álaborgarliðið frá því að Elín Jóna hafi skrifað undir samning við lið félagsins.
EH Aalborg er í efsta sæti næst efstu deildar og stefnir hraðbyri upp í úrvalsdeildina eftir að hafa unnið 19 leiki í röð. Tvær umferðir eru eftir. Gangi allt að óskum hjá liðinu í tveimur síðustu leikjunum er ljóst að Elín Jóna leikur áfram í dönsku úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.
Fyrir hjá EH Aalborg er önnur íslensk landsliðskona, Andrea Jacobsen, sem nýverið skrifaði undir nýjan samning við félagið. Sandra Erlingsdóttir lék með EH Aalborg frá 2020 til 2022.
Áður en Elín Jóna gekk til liðs við Ringkøbing Håndbold fyrir tveimur árum var hún í þrjú ár markvörður Vendsyssel. Hún lék með Haukum og Gróttu hér heima.
Elín Jóna hefur leikið 41 A-landsleik. Hún verður væntanlega í eldlínunni með íslenska landsliðinu gegn ungverska landsliðinu í umspilsleikjum um HM-sæti 8. og 12. apríl.