Erlingur Richardsson þjálfari karlaliðs ÍBV var úrskurðaður í eins leiks bann á fundi aganefndar í gær en niðurstaða nefndarinnar var birt í dag. Hann verður þar með í banni á laugardaginn þegar ÍBV fær Fram í heimsókn í 19. umferð Olísdeildar karla.
Erlingur hlaut útilokun með skýrslu vegna mjög grófrar ódrengilegrar hegðunar eftir leik Harðar og ÍBV í Olís deild karla á síðasta föstudag. Í úrskurði aganefndar segir að “dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að þjálfarinn er úrskurðaður í eins leiks bann.”
Marta Wawrzynkowska markvörður ÍBV, sem hlaut útilokun með skýrslu í úrslitaleik ÍBV og Vals í Poweardabikarkeppni kvenna á laugardaginn, var ekki úrskurðuð í bann. Sömu sögu er að segja um Þráinn Orra Jónsson leikmann Hauka og Skarphéðinn Ívar Einarsson leikmann KA. Þeir voru hvor um sig útilokaðir frá úrslitaleikjum Poweradebikarkeppninnar um síðustu helgi en hljóta ekki leikbann.
Staðan í Olísdeildunum og næstu leikir.
Aganefnd sér að vanda ástæðu til þess að vekja athygli fjórmenninganna á stighækkandi áhrifum útlokana.