Tandri Már Konráðsson fyrirliði Stjörnunnar úlnliðsbrotnaði á vinstri hönd í undanúrslitaleik Stjörnunnar og Aftureldingar í Poweradebikarnum í Laugardalshöll á síðasta fimmtudag. Tandri Már staðfesti ótíðindin í samtali við hlaðvarp Seinni bylgjunnar og Vísir segir frá.
Þykir ljóst að Tandri Már verður ekki með Stjörnunni í næstu leikjum af þessum sökum. Fram kemur að hann verður í gifsi í fjórar vikur og gæti misst af leik eða leikjum í átta liða úrslitum Olísdeildar.
Tandri Már segir í samtalinu við hlaðvarp Seinni bylgjunnar að hann hafi meiðst í fyrri hálfleik en haldið að ekki hefði neitt alvarlegt gerst. Annað hafi komið á daginn þegar hann leitaði til læknis á laugardaginn eftir að líðanin versnaði jafnt og þétt.