- Auglýsing -
„Við viljum allir spila vel og vinna. Það er markmiðið,“ sagði Ómar Ingi Magnússon landsliðsmaður í handknattleik við handbolta.is í gær spurður um Noregsleikinn í kvöld en það verður síðasti leikur íslenska landsliðsins á HM2021. Ómar Ingi verður væntanlega í stærra hlutverki en áður þar sem Viggó Kristjánsson er úr leik vegna meiðsla í ökkla sem hann varð fyrir gegn Frökkum í fyrradag. Flautað verður til leiks klukkan 17.
„Við stigum framfaraskref gegn Frökkum frá leiknum á undan. Það er okkar markmið að halda áfram að byggja ofan á leik okkar. Norðmenn eru öflugir með skemmtilegt og vel samspilað lið. Þeir hafa byggt upp gott lið og eru í hörkuleikformi,“ sagði Ómar Ingi sem reiknar með hröðum og skemmtilegum leik. Bæði lið vilja leika hraðan leik.
„Okkar markmið er að spila vel og vinna leikinn. Um leið verðum við að bæta okkar leik frá viðureigninni við Frakka. Það má lengi gera betur,“ sagði Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik í stuttu viðtali við handbolta.is í gær.
- Auglýsing -