Skjótt skipuðust veður í lofti hjá handknattleiksþjálfaranum Hrvoje Horvat í gær. Honum var fyrirvaralaust vikið úr starfi þjálfara þýska 1. deildarliðsins Wetzlar í gærmorgun eins og handbolti.is sagði frá. Ekki liðu nema nokkrar klukkustundir frá brottrekstrinum þangað til að Horvat hafði verið munstraður hjá annarri útgerð.
Svissneska meistaraliðið Kadetten Schaffhausen tilkynnti í gær að Horvat taki við þjálfun liðsins í sumar þegar Aðalsteinn Eyjólfsson lætur af störfum. Aðalsteinn hefur verið ráðinn þjálfari GWD Minden frá og með 1. júlí. Minden er í harðri baráttu við Wetzlar um að forðast fall úr þýsku 1. deildinni.
Forsvarsmenn Wetzlar sögðu Horvat upp í gærmorgun eftir að upp úr dúrnum kom að hann ætti í viðræðum um að taka við þjálfun annars liðs í sumar. Það töldu þeir nánast vera samningsbrot.
Horvat tók við þjálfun Wetzlar í desember Þá var liðið í basli í botnbaráttu deildarinnar. Svo er enn. Horvat var sagt upp sem þjálfara karlalandsliðs Króatíu eftir HM í janúar.