- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Báðir vildu höggva á hnútinn og ná sáttum

Íslenska landsliðið í handknattleik kemur saman sem ein heild til æfinga og leikja síðar í þessum mánuði. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Við leystum málið innanhúss og menn skilja sáttir,“ sagði Gunna Magnússon annar þjálfara karlalandsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir að hann valdi bæði Björgvin Pál Gústavsson og Kristján Örn Kristjánsson, Donna, í 17 manna hóp karlalandsliðsins sem var opinberaður í morgun.

Deilur leikmannanna tveggja á opinberum vettvangi skóku handknattleikssamfélagið hér heima um síðustu mánaðarmót. Donni og Björgvin Páll hafa slíðrað sverðin fyrir tilstuðlan Gunnars.

Best að greiða úr málum innanhúss

„Lærdómurinn sem við drögum af þessu máli er sá að alltaf er hægt að leysa erfiðleikana með því að tala saman. Ég held að allir séu sammála um að best sé að greiða úr málum innanhúss en ekki á opinberum vettvangi,“ sagði Gunnar sem sagði ekki hafa komið annað til greina en leita lausna svo báðir leikmenn gætu gefið kost á sér í landsliðið ef til þeirra yrði leitað.

Framundan eru tveir síðustu leikir landsliðsins í undankeppni EM. Þörf væri á Björgvin Páli og Kristjáni Erni í landsliðið að þessu sinni. Auk þess hafi það ekki verið neinum til hagsbóta að draga það úr hömlu að leysa deilurnar, hreinsa loftið.

Engum til hagsbóta að bíða

„Við litum svo á að það væri best fyrir leikmennina og landsliðið að leysa vandamálið. Ekki væri að betra að ýta því á undan sér fram á haust eða varpa því í fangið á nýjum landsliðsþjálfara.

Þungu fargi er létt

Á samtölum mínum við báða leikmenn var ljóst að báðir vildu höggva á hnútinn og ná sáttum. Að frumkvæði mínu þá leystist málið,“ sagði Gunnar og bætti við að þungu fargi væri af öllum létt.

Best að leysa strax

„Ég hef lengi verið í kringum landsliðið og félagsliðið og þekki vel af fenginni reynslu að þegar vandamál koma upp í samskiptum manna þá sé öllum fyrir bestu að leysa þau manna á milli innanhúss heldur en að hafa það endalaust hangandi yfir sér,“ sagði Gunnar Magnússon annar af tveimur starfandi landsliðsþjálfurum karla í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -